Framtíð kvikmyndahússins að Hverfisgötu 54
Minjastofnun Íslands harmar nýjustu fregnir er varða framtíð kvikmyndahússins að Hverfisgötu 54 þar sem Bíó Paradís hefur verið starfrækt síðasta áratuginn. Bíórekstur hefur verið í húsinu frá upphafi en kvikmyndahúsið Regnboginn var opnað sama ár og húsið var fullbyggt árið 1977. Bíóið var búið nýjustu tækni í sýningarbúnaði á þeim tíma og var fyrsta kvikmyndahúsið hér á landi sem frá upphafi var sérhannað sem fjölsalabíó. Bíó Paradís er seinasta kvikmyndahúsið sem enn er starfandi í miðbæ Reykjavíkur. Húsnæðið er hið eina í miðbænum sem hentar til slíks reksturs auk þess sem þar er sérhæfður búnaður til sýninga á ólíkum formum kvikmynda. Á síðustu árum hefur Bíó Paradís fest sig í sessi sem helsti griðastaður kvikmyndalistar í landinu og mikilvæg miðstöð menningar og mannlífs í þessum hluta miðbæjarins.
Borgarsögusafn Reykjavíkur vann á seinasta ári varðveislumat fyrir kvikmyndahúsið að Hverfisgötu 54. Helstu niðurstöður matsins eru að húsið hafi miðlungs til hátt varðveislugildi sem felist einkum í menningarsögulegu gildi þess og þeirrar starfsemi sem það hýsir. Í því vegur þyngst að enn er óslitið það samhengi sem er milli upphaflegrar og sérhæfðrar hönnunar hússins sem fjölsala kvikmyndahúss, hins fyrsta sinnar tegundar hér á landi, og þeirrar starfsemi sem það hýsir og hefur hýst frá upphafi. Jafnframt er þar eina starfandi kvikmyndahúsið sem eftir er í miðbæ Reykjavíkur og þar með er það lifandi vitnisburður um þann þátt í sögu dægurmenningar og afþreyingar í Reykjavík. Starfsemi kvikmyndahússins á jarðhæð leggur mikið til götulífs og staðaranda við Hverfisgötu.
Starfsmenn Minjastofnunar Íslands kynntu sér sögu og ástand kvikmyndahússins á seinasta ári ásamt fulltrúum frá Borgarsögusafni og skrifstofu menningarmála hjá Reykjavíkurborg. Niðurstaða þeirra var að taka heilshugar undir það mat á varðveislugildi bíósins sem fram kemur í umsögn Borgarsögusafns. Minjastofnun hvetur Reykjavíkurborg eindregið til þess að setja nauðsynleg ákvæði í skipulagi miðbæjarins eða gera aðrar þær ráðstafanir sem tryggt geta áframhaldandi bíórekstur í húsinu sem ómissandi er fyrir mannlíf og menningu í miðbænum.
Myndin hér að ofan er úrklippa úr Vikunni frá árinu 1978. Greinina má lesa hér .