Fara í efni

Friðun Brekkuskóga 10 á Álftanesi

Brekkuskógar 10
Brekkuskógar 10

 

Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, húsið að Brekkuskógum 10 á Álftanesi, 18. maí 2011, að tillögu Húsafriðunarnefndar.

Friðunin nær til ytra byrðis hússins og burðarvirkis þess.

Samhliða tillögu að Brekkuskógum 10 lagði Húsafriðunarnefnd til að húsið að Brekkuskógum 8 væri friðað. Húsin eru byggð á árunum 1959-62 eftir sameiginlegri teikningu arkitektanna Guðmundar Kr. Kristinssonar og Manfreðs Vilhjálmssonar. Húsin standa á brekkubrún við jaðar ósnortins strandsvæðis og mynda samstæða heild. Húsin hafa varðveist með upphaflegum útlitseinkennum og innréttingum. Arkitektarnir tveir litu á byggingu eigin íbúðarhúss sem tækifæri til að reyna ýmsar nýjungar í innra skipulagi, uppbyggingu og efnisnotkun. Í stað steyptra burðarveggja hvílir léttbyggt þakið á burðargrind úr stálstoðum, sem vegg- og gluggaeiningar í föstum stærðum eru felldar að. Skipulag íbúðanna var óhefðbundið, þar sem segja má að gæti japanskra áhrifa: eitt opið rými með rennihurðum, léttum milli­veggjum og skápaeiningum í stað fastra veggjaAð þessu leyti mörkuðu húsin þáttaskil í þróun íslenskrar nútímabyggingarlistar.

 

Arkitekt hússins, Manfreð Vilhjálmsson, hefur búið í húsinu frá upphafi ásamt fjölskyldu sinni, en faðir hans Vilhjálmur Jónsson húsasmiður byggði húsið. Nýbyggt þótti húsið afar sérkennilegt, óþekkt var að hafa glugga niður í gólf, engar gardínur heldur einungis tjöld sem rennt var niður og í húsinu var loft- og geislahitun. Að sögn Manfreðs er húsið hannað eins og hestur, sem snýr afturenda í norðrið, allir stórir gluggar snúa í suður en fáir gluggar í norðurátt.

 

Heimild: 

Heimsókn í Smiðshús (2006, 31. júlí). Morgunblaðið – Fasteignablað, bls. 32-33.