Fara í efni

Friðun Ingólfsstrætis 21 í Reykjavík

 

Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, húsið að Ingólfsstræti 21 í Reykjavík, 18. maí 2011, að tillögu Húsafriðunarnefndar.

Friðunin nær til ytra byrðis hússins. 

Húsið að Ingólfsstræti 21, sem reist var árið 1903, er ásamt Bankastræti 6 elsta íbúðarhúsið í Reykjavík sem reist var úr steinsteypu. Húsið er fyrsta skýra dæmi hér á landi um steinsteypuklassík (nýrenesans í steypu). Húsið er óvenju heilsteypt og formfagurt hús og ber það einna hæst af frumverkum steinsteypualdar í listrænu tilliti. Framhlið hússins er samhverf um miðju með miðjusettum kvisti. Umhverfis glugga er klassískt, steinsteypt skraut og á úthornum eru steinhleðslur mótaðar í steypuna. 

Ekki er vitað hver hannaði húsið, en fyrsti eigandi þess var Halldór Þórðarson bókbindari og forstjóri Félagsprentsmiðjunnar. Sem dæmi um hve veglega var að þessari byggingu staðið í upphafi má nefna að danskir fagmenn voru fluttir til landsins til þess að steypa upp húsið og gera skreytingar í það, m.a. rósettur og loftlista. Stærstan hluta síðustu aldar bjó í húsinu útgerðar- og athafnamaðurinn Óskar Halldórsson, sem Halldór Laxness gerði ódauðlegan í persónu Íslands-Bersa í Guðsgjafaþulu. Á þeim tíma bjuggu þrjár fjölskyldur í húsinu.

 

Heimildir:

Eitt fyrsta steinsteypta húsið í Reykjavík til sölu (2003, 6. maí). Morgunblaðið, blað B, bls. 1.

Páll Líndal (1991). Reykjavík. Sögustaður við Sund. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Leiðsögn um íslenska byggingarlist (2000). Reykjavík: Arkitektafélag Íslands.