Fara í efni

Friðun Laugavegar 29 í Reykjavík

 

Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, húsið að Laugavegi 29 í Reykjavík, 18. apríl 2011, að tillögu Húsafriðunarnefndar. Þegar Húsafriðunarnefnd ákvað að leggja til við ráðherra að friða 11 hús við Laugaveg árið 2007 var einkum litið til þess að húsin hafa öll mikið gildi fyrir umhverfi sitt, flest þeirra hafa einnig mikið listrænt gildi og mörg hver töluvert menningarsögulegt gildi. Jafnframt er horft til þess að mikilsvert sé að varðveita byggingarsögulega fjölbreytni þessa hluta miðbæjarins og tengsl Laugavegar við aðliggjandi götur sem margar hafa varðveitt upphaflegt svipmót sitt.

Friðun Laugavegar 29 nær til ytra byrðis hússins við Laugaveg, sem byggt var árið 1906.

Fyrsti eigandi hússins var Guðmundur Hallsson trésmiður og er ekki ólíklegt að hann hafi byggt húsið. Frá upphafi hefur verið rekin verslun á neðri hæð hússins. Á efri hæðinni var lengi vel íbúð, en þar eru nú skrifstofur og geymslur. Verslunin Brynja flutti í húsið árið 1930 og er þar enn. Verslunin var stofnuð árið 1919 og er því elsta starfandi járnvöruverslun landsins.

 

Heimildir: 

Nikulás Úlfar Másson og Helga Maureen Gylfadóttir (2001). Húsakönnun. Laugavegsreitir – miðsvæði. Skýrslur Árbæjarsafns 86. Reykjavík: Árbæjarsafn.

Verslunin Brynja (ódags.). Sótt 10. maí 2011 af brynja.is.