Fara í efni

Friðun Lindargötu 7 í Reykjavík

 

Lindargata 7Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, húsið að Lindargötu 7 í Reykjavík, 28. mars 2011, að tillögu Húsafriðunarnefndar. Friðunin tekur til ytra byrðis hússins.

Einar Sveinsson arkitekt og Sigmundur Halldórsson húsameistari hönnuðu íþróttahús Jóns Þorsteinssonar árið 1934. Húsið er eitt af frumverkum funksjónalismans hér á landi, einföld og stílhrein bygging sem jafnframt er óvenjuleg gerðrar, byggð sem íþróttahús sem lagað er að hornlóð í þéttri byggð. Það hefur haldið ytra útliti án verulegra breytinga og er jafnframt eitt af elstu verkum höfunda sinna. Húsið hefur því mikla sérstöðu í sögu byggingarlistar á Íslandi.

 

Þegar Jón Þorsteinsson (1898-1985) kom til landsins árið 1924 sem menntaður íþróttakennari stofnaði hann íþróttaskóla, sem hann nefndi Müllersskóla, vegna þeirra æfinga sem hann lagði áherslu á að kenna. Í upphafi var skólinn til húsa í Austurstræti 16 og síðar í Austurstræti 14. Árið 1935 lét Jón reisa íþróttahús við Lindargötu, sem þótti mikið stórvirki og afar glæsilegt. Þar voru tveir fimleikasalir, áhaldageymslur, fullkomin búningsherbergi, sturtuklefi og meira að segja gufubaðstofa. Í húsinu var miðstöð og sérstakt lofthitunartæki fyrir báða salina. Þegar húsið var vígt í nóvember 1935 var hrifning manna mikil og var húsinu lýst þannig:

Í þessu fagra húsi, sem er fegurst allra íþróttahúsa á Norðurlöndum, á að þjálfa fegurstu mennina og fegurstu konurnar til þess að verða hraustustu og duglegustu borgararnir.

Jón Þorsteinsson bjó í húsinu ásamt Eyrúnu Guðmundsdóttur eiginkonu sinni. Þar rak hann íþróttaskóla til ársins 1976. Nær öll starfsemi íþróttafélagsins Ármanns fór fram í húsinu og þar var fyrsta baðstofan til almenningsnota í Reykjavík. Á sumrin lánaði Jón vini sínum Jóhannesi Kjarval stóra leikfimisalinn til að mála og þar hélt Kjarval myndlistarsýningar. Þjóðleikhúsið hóf leiksýningar í húsinu árið 1987, fyrst í kjallara og síðar í leikfimisal, en áður hafði það flutt þangað skrifstofur og æfingaaðstöðu.

 

Heimildir:

Guðjón Friðriksson (1994). Saga Reykjavíkur. Bærinn vaknar 1870-1940. Síðari hluti. Reykjavík: Iðunn.

Leikminjasafn Íslands (ódags.). Íslensk leikhús. Þjóðleikhúsið (Hverfisgata 19). http://www.leikminjasafn.is/leiksaga/lhthjodl.html.