Fara í efni

Friðun steinbæja og steinhlaðinna húsa


Tímamót urðu í byggingu steinhúsa þegar Alþingishúsið var byggt á árunum 1880−1881. Íslendingar lærðu þar iðnina að höggva til grjót. Á árunum 1880−1900 voru allmörg steinhús byggð í Reykjavík. Varð þá til ný húsagerð, steinbæir, sem á skömmum tíma varð algeng í Reykjavík. Það voru einkum tómthúsmenn sem byggðu sér steinbæi til íbúðar en áður bjuggu þeir í torfbæjum. Segja má að lag torfbæjarins hafi þarna verið lagað að nýjum aðstæðum og er hér um sérreykvískt fyrirbæri að ræða. Á þessum tíma voru einnig byggð allmörg lítil íbúðarhús úr steini. Munurinn á þeim og steinbæjum er sá að í litlu steinhlöðnu húsunum eru allir veggir byggðir úr tilhöggnu grágrýti. Segja má að með þessari sérreykvísku húsagerð hafi fyrstu þéttbýlisalþýðu Íslands, sem á þessum árum var að slíta sig undan vistarbandinu, verið kippt inn í nútímann, þar sem þá buðust betri og varanlegri húsakynni en fram að þeim tíma höfðu þekkst. Alls voru hlaðin um 200 hús úr grágrýti í Reykjavík á tímabilinu frá 1860 til 1910 − um 130 steinbæir og 70 hús. Síðan hafa steinbæir og steinhlaðin hús verið að týna tölunni, og er nú svo komið að einungis 17 steinbæir og 18 steinhlaðin hús standa enn í Reykjavík. Vegna sérstöðu steinbæjanna og steinhlöðnu íbúðarhúsanna í menningar- og byggingasögu Reykjavíkur má ljóst vera að eftir­standandi hús hafa öll mjög mikið varðveislugildi. Því var samþykkt á fundi Húsafriðunarnefndar 11. nóvember 2010 að fela forstöðumanni að hefja undirbúning tillögu að eftirtalinna þrjátíu steinbæja og steinhlaðinna húsa í Reykjavík.

 

Bankastræti 3                                                 Bergstaðastræti 12       

Bergstaðastræti 21                                       Bergstaðastræti 22       

Bergstaðastræti 24                                       Bjargarstígur 17           

Bókhlöðustígur 6                                           Brekkustígur 5a           

Bræðraborgarstígur 14                                Bræðraborgarstígur 19 

Drafnarstígur 5                                              Garðar við Ægisíðu     

Grandavegur 40                                            Holtsgata 41b  

Ingólfsstræti 23                                             Klapparstígur 19          

Lagargata 2 (áður Bakkastígur 9)             Laufásvegur 5 

Nýlendugata 9                                               Reynistaður, Skildinganesi    

Skólavörðustígur 4                                       Skólavörðustígur 22    

Skólavörðustígur 22a                                  Sólvallagata 68

Suðurgata 26a                                              Tómasarhagi 16b         

Vesturgata 50                                                Vesturgata 57  

Vesturgata 61                                                Þingholtsstræti 1

 

Nú hefur mennta- og menningarmálaráðherra ákveðið að friða sex þessara húsa, þ.e. Bankastræti 3, Bergstaðastræti 12, Bergstaðastræti 21, Bergstaðastræti 22, Bergstaðastræti 24 og Bjargarstíg 17. Friðunin nær til ytra byrðis húsanna.