Fara í efni

Innra byrði Bakkaflatar 1 í Garðabæ friðað

Bakkaflöt 1
Bakkaflöt 1


Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, ytra byrði hússins að Bakkaflöt 1 í Garðabæ, 19. maí 2011, að tillögu Húsafriðunarnefndar. Þann 1. febrúar 2012 friðaði ráðherrann einnig innra byrði hússins, þar með talið allar fastar innréttingar og húsgögn, fasta og færanlega innveggi og hurðir, blómagryfju, yfirborð veggja, gólfefni og klæðingar í loftum.

Högna Sigurðardóttir arkitekt teiknaði húsið að Bakkaflöt 1 árið 1965. Í þessu íbúðarhúsi birtist næm tilfinning Högnu fyrir landslagi og náttúru auk þess sem hún vinnur með undirstöðuatriði úr forni íslenskri húsagerð sem efnivið í persónulegri og framsækinni listsköpun. Á meistaralegan hátt tekst höfundi að endurskapa andrúm og efniskennd íslenskra torfbæja í nútímalegum formum og frjálsri rýmisskipan. Þessi frumlega túlkun á sérkennum íslenskrar byggingarlistar hefur orðið til þess að margir hafa tilnefnt þetta hús sem eitt merkasta framlag einstaklings til íslenskrar nútímabyggingarlistar. Það álit var staðfest árið 2000, þegar húsið var valið eitt af 100 merkustu byggingum 20. aldar í norður- og miðhluta Evrópu, í tengslum við útgáfu alþjóðlegs yfirlitsrits um byggingarlist 20. aldar.

 

Í bókinni Leiðsögn um íslenska byggingarlist segir þetta um húsið: 

Húsið er fellt inn í halla landsins og torfveggir þess hlífa því fyrir veðri og vindum. Hér og hvar eru skörð í veggjunum þar sem birtu er veitt inn um gluggafleti. Að innan er húsið eitt stórt, opið rými með ýmsum kimum sem loka má af með renniveggjum. Miðpunktur rýmisins er arinn sem stendur í miðri stofunni. Skorsteinninn sem gengur upp úr honum er umlukinn eins konar glerhjálmi sem veitir birtu niður í rýmið. 

Til að ná fram sem fallegastri heildarmynd voru flest húsgagnanna innbyggð og eru því órjúfanlegur hluti af húsinu sjálfu sem er steypt úr sjónsteypu og ómálað. Loft, sem brotið er upp í mismunandi hæðir, og renniveggir eru úr ljósum við sem myndar sterka andstæðu við grófa steypuna.

 

Heimild:

Leiðsögn um íslenska byggingarlist (2000). Reykjavík: Arkitektafélag Íslands.