Fara í efni

Íslenskar miðaldakirkjur í nýju ljósi

Fimmtudaginn 7. nóvember 2013 kl. 16.30

Lögbergi 101

 

Tveir fyrirlestrar um íslenskrar miðaldakirkjur verða haldnir í miðaldamálstofu fimmtudaginn 7. nóvember kl. 16.30. Þorsteinn Gunnarsson fjallar um Halldórukirkju og Péturskirkju á Hólum og Gunnar Harðarson segir frá nýjum hugmyndum um Gíslakirkju og Klængskirkju í Skálholti:

 

Þorsteinn Gunnarsson: Halldórukirkja og Péturskirkja á Hólum í nýju ljósi


Í erindinu er fjallað um tvær eldri Hóladómkirkjur, stærð þeirra og gerð, út frá skriflegum heimildum. Til eru tvær heimildir frá 18. öld um stærð Halldórukirkju (reist 1627, rifin 1759). Þeim ber ekki saman og hefur verið ályktað að önnur þeirra sé ótraust. Hér er sýnt fram á að mælingarnar voru gerðar hvor með sínum hætti, og færð rök að því að báðar heimildirnar séu traustar. Á grundvelli þeirra og lýsinga úttekta eru gerðir uppdrættir af Halldórukirkju.

Áður hefur verið álitið að Péturskirkja (reist 1395, fauk 1624) hafi verið 84 álna löng. Hér eru leidd að því rök að sú skoðun byggist á mistúlkun á heimild frá 16. öld, sem segi þvert á móti að kirkjan hafi verið 67 álna löng. Þessu til staðfestingar eru tilfærðar tvær heimildir sjónarvotta, önnur um fjölda þaksperra, hin um samanburð á kirkjunum tveimur. Miðað við þessa lengd kirkjunnar eru gerðar tilgátuteikningar af Péturskirkju (1395).
 
Þorsteinn Gunnarsson er arkitekt frá Arkitektaskóla konunglega danska listaháskólans og stundaði einnig nám í byggingarfornleifafræði við Franska fornleifaskólann í Aþenu. Hann er ritstjóri ritraðarinnar Kirkjur Íslands.

 

Gunnar Harðarson: Nýjar hugmyndir um Gíslakirkju og Klængskirkju í Skálholti


Á miðöldum voru þrjár dómkirkjur byggðar í Skálholti: Gissurarkirkja (1082), Klængskirkja (1153) og Árnakirkja (1311), og tvær voru reistar á siðbreytingartímanum: Ögmundarkirkja (1527) og Gíslakirkja (1570). Almennt er talið að þær hafi verið hver annarri líkar og hinar síðari reistar á grunni hinna fyrri. Vitað er að Gísli biskup Jónsson hafði uppi áform um að smíða minni kirkju í stað Ögmundarkirkju, en ekki hefur verið unnt að sýna fram á að kirkjan sem hann reisti hafi verið minni en fyrirrennari hennar. Í erindinu eru ritaðar heimildir um áform Gísla biskups endurmetnar og komist að þeirri niðurstöðu að samkvæmt þeim  hljóti hann að hafa minnkað kirkjuna. En hvernig kemur sú niðurstaða heim og saman við vitnisburð fornleifarannsóknarinnar sem er undirstaðan undir öllum tilgátum um gerð og stærð Skálholtskirkna?  Og hvað getur hann sagt okkur um fagurfræði Klængskirkju?

 
Gunnar Harðarson  er prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild og umsjónarmaður meistaranáms í miðaldafræðum.

Miðaldafræðimálstofan Strengleikar

midaldastofa.hi.is