Fara í efni

Kynningarferð starfsfólks Minjastofnunar Íslands í Varsjá

Starfsfólk Minjastofnunar og fylgifiskar við Krzemionki safnið. © Daníel Máni Jónsson.
Starfsfólk Minjastofnunar og fylgifiskar við Krzemionki safnið. © Daníel Máni Jónsson.

Minjavarslan í Póllandi tók vel á móti starfsfólki Minjastofnunar Íslands í Varsjá í síðustu viku með þéttri dagskrá dagana 9. - 13. október. Starfsfólk fékk kynningu á starfsemi minjavörslunar í Póllandi, Narodowy Instytut Dziedzictwa (NID), þar sem sérfræðingar stofnunarinnar sögðu frá helstu verkefnum og áskorunum. Ljóst er að margt er líkt með stofnununum tveimur og má þar nefna skráningu fornleifa og byggingararfs, friðlýsingar og viðhald menningarminja, gagnagrunnsmál, miðlun ofl. Alls starfa um 200 manns hjá Narodowy Instytut Dziedzictwa sem eru með aðalskrifstofu í Varsjá.

Farið var í leiðsögn um gamla bæinn í Varsjá þar sem Agnieszka Sus-Tomaszuk, fornleifafræðingur, sagði frá enduruppbyggingu húsa eftir að nasistar sprengdu borgina í síðari heimsstyrjöld og skildu eftir sem rústir einar. Húsin voru endurgerð í þeirri mynd sem þau voru á seinni hluta 18. aldar. Við endurgerðina var m.a. notast við málverk Bernardo Bellotto (Canaletto), listmálara. Það var einstakt að sjá hversu vel tókst til við endurgerðina en einnig hvernig hlutar einstakra húsa fengu að halda sér til minnis um þá eyðileggingu sem varð í stríðinu. Gamli bærinn í Varsjá er nú á heimsminjaskrá UNESCO.

 

Krzemionki

Krzemionki tinnusteinsnámurnar í Świętokrzyski fjallahéraðinu voru heimsóttar undir fróðlegri leiðsögn dr. Szymon Modzelewski, fornleifafræðings. Námurnar eru forsögulegar, eða frá 4000 – 2000 árum f.Kr. og ná yfir allt að 4,5 km svæði en um 4000 slíkar námur eru þekktar í öllu héraðinu. Gröftur eftir tinnusteini (e. flint) fór þar fram yfir 5000 ára tímabil og fornleifarannsóknir hafa m.a. leitt í ljós hvernig aðferðum var beitt á forsögulegum tíma til að ná í þetta eftirsótta hráefni úr hvítum kalksteini (e. limestone) sem einkennir jarðfræði svæðisins. Námurnar í Krzemionki eru á heimsminjaskrá UNESCO.

Kampinoski

Auk þessa var farið í Kampinoski þjóðgarðinn sem er þekktur fyrir einstaka náttúru og dýralíf en þar eru einnig að finna fornleifar og hús. Agnieszka Oniszczuk, fornleifafræðingur hjá NID, leiddi hópinn um þjóðgarðinn þar sem skoðað var virki frá miðöldum og rætt um aðgengi, miðlun og viðhald minjastaða. Gengið var um lítið húsasafn með gömlum aðfluttum húsum sem hafa fengið viðeigandi viðhald og endurbætur í þjóðgarðinum.

 

 

 

Starfsfólk Minjastofnunar Íslands er þakklátt fyrir hlýjar og góðar móttökur í Póllandi og þau tengsl sem hafa myndast við systurstofnunina Narodowy Instytut Dziedzictwa.