Fara í efni

Laugavegur 21 í Reykjavík friðaður

Laugavegur 21
Laugavegur 21

 

Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, húsið að Laugavegi 21 í Reykjavík, 6. október 2011, að tillögu Húsafriðunarnefndar. Þegar Húsafriðunarnefnd ákvað að leggja til við ráðherra að friða 11 hús við Laugaveg árið 2007 var einkum litið til þess að húsin hafa öll mikið gildi fyrir umhverfi sitt, flest þeirra hafa einnig mikið listrænt gildi og mörg hver töluvert menningarsögulegt gildi. Jafnframt er horft til þess að mikilsvert sé að varðveita byggingarsögulega fjölbreytni þessa hluta miðbæjarins og tengsl Laugavegar við aðliggjandi götur sem margar hafa varðveitt upphaflegt svipmót sitt.

Friðun Laugavegar 21 nær til ytra byrðis hússins, sem byggt var árið 1884.

Magnús Pálsson múrari lét byggja húsið, en yfirsmiður við byggingu þess var Ole Johan Haldorsen en hann var jafnan kallaður Óli norski. Húsið var einlyft, byggt af bindingi sem múrað var í með múrsteini. Árið eftir að Óli flutti í húsið 1894 stækkaði hann og hækkaði húsið og það fékk á sig þá mynd sem haldist hefur síðan. Í húsinu stundaði Óli vagnasmíði. Hann gerði brunn í kjallara hússins og notaði til leskja í honum kalk, sem notað var í steinlímsgerð. Húsið var í eigu afkomenda þeirra Óla norska og Else konu hans fram á áttunda áratug síðustu aldar. Meðal annars opnaði sonarsonur þeirra, Þorlákur R. Haldorsen, eitt af fyrstu listagalleríum landsins í húsinu árið 1964. Margvísleg önnur starfsemi hefur farið fram í húsinu, skósmíði, söðlasmíði, þar var rekið sláturhús, klæðskerar stunduðu þar iðn sína og þar hafa verið verslanir af ýmsu tagi og veitingasala.

Heimild:

Freyja Jónsdóttir (2002, 23. apríl). Laugavegur 21. Morgunblaðið, 44 C.

 

Sjá á loftmynd.