Fara í efni

Lög um menningarminjar


Ný lög um menningarminjar, sem samþykkt voru á Alþingi 18. júní 2012, taka gildi 1. janúar 2013. Við gildistöku laganna munu Húsafriðunarnefnd og Fornleifavernd ríkisins verða sameinaðar í eina stofnun, Minjastofnun Íslands. Jafnframt verða gerðar ýmsar aðrar breytingar á minjavörslu í landinu. Sem dæmi má nefna að öll hús og mannvirki sem eru 100 ára eða eldri verða friðuð og þeim má því ekki raska eða breyta nema með leyfi stofnunarinnar. Í núgildandi lögum um húsafriðun, nr. 104/2001, eru hús sem byggð eru fyrir 1850 friðuð svo og kirkjur sem byggðar eru fyrir 1918.

Með nýju lögunum verða eigendum húsa og mannvirkja sem ekki njóta friðunar en byggð voru 1925 eða fyrr, svo og forráðamönnum kirkna sem reistar voru 1940 eða fyrr, skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands ef þeir hyggjast breyta þeim. Í núgildandi lögum er umsagnarskylda þessi miðuð við árið 1918.

Lög um menningarminjar í heild sinni má finna hér.