Fara í efni

Minjaslóð - smáforritið opnað formlega

Laugardaginn 2. júní var opnað formlega nýtt smáforrit um sögu Reykjavíkurhafnar, sem nefnist Minjaslóð. Opnunin var hluti af Hátíð hafsins en hún var einnig liður í dagskrá 100 ára fullveldisafmælis Íslands og Menningararfsárs Evrópu. Við opnunina ávörpuðu Kristín Soffía Jónsdóttir, stjórnarformaður Faxaflóahafna, og Guðbrandur Benediktsson, safnstjóri Borgarsögusafns Reykjavíkur, viðstadda og að lokum opnaði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, forritið formlega.

Launch-image-copy

Forritið var unnið af Minjastofnun Íslands, Faxaflóahöfnum og Borgarsögusafni Reykjavíkur með styrk frá afmælisnefnd 100 ára fullveldis Íslands. Forritið er hannað af hugbúnaðarfyrirtækinu Locatify. Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur, sá að  mestu um textasmíð og Þorsteinn Gunnarsson, leikari og arkitekt, las textann upp af sinni alkunnu snilld.

Forritið skiptist í tvo hluta, annars vegar Minjaslóð þar sem finna má fimmtán upplýsingapunkta á hafnarsvæðinu sem segja sögu hafnarinnar og mannvirkja hennar, og hins vegar Minjaleit sem er fjársjóðsleit fyrir yngri kynslóðina þar sem unnið er með sögu hafnarinnar. Þátttakendur svara spurningum og taka myndir af kennileitum við höfnina, safna þannig stigum og komast á endapunkt.

Er það von aðstandenda Minjaslóðar að almenningur verði duglegur að notfæra sér forritið, bæði við höfnina en einnig heima. Minjaleit virkar eingöngu á hafnarsvæðinu, og byrjar leitin við Sjóminjasafnið, en Minjaslóð er hægt að virkja bæði á hafnarsvæðinu og heima í sófa, eða hvar sem er.

Minjaslóð er aðgengileg fyrir Apple og Android í App/Play store.

Meira má lesa um forritið hér .