Nýjar friðlýsingar
Forsætisráðherra hefur að tillögu Minjastofnunar Íslands ákveðið að friðlýsa eftirtalin hús og mannvirki:
Nasa-salinn, sem er í bakálmu hins friðlýsta húss að Thorvaldsensstræti 2 í Reykjavík. Friðlýsingin tekur til innviða, rýmisskipunar og varðveittra hluta af upprunalegum innréttingum.
Salur Sjálfstæðishússins (Nasa-salurinn) í bakálmu Thorvaldsenstrætis 2 endurspeglar í gerð sinni, rýmisskipan, hlutföllum, skreyti og andrúmi tíðaranda 5. áratugarins þegar ensk-amerísk áhrif í tónlist, tísku og byggingarstíl voru áberandi. Á undanförnum mánuðum hafa fjölmargir vakið opinberlega máls á sögulegu og tilfinningalegu gildi salarins og þátt hans í menningar- og félagslífi Reykvíkinga um miðbik 20. aldar. Enginn samkomusalur með hliðstæðum einkennum hefur varðveist í jafn heillegri mynd í Reykjavík. Menningargildi salarins felst ennfremur í tengingu hans við íslenska tónlistarsögu en þar var vettvangur tónleikahalds um áratuga skeið.
Bergstaðastræti 70 í Reykjavík. Friðlýsingin tekur til ytra borðs hússins.
Á undanförnum árum hafa yfirvöld minjavörslu beitt sér fyrir friðlýsingu merkra 20. aldar bygginga og hefur í því sambandi valið íbúðarhús eftir merka arkitekta frá eftirstríðsárunum sem telja má sértaklega góð og vel varðveitt dæmi um verk þeirra. Íbúðarhúsið við Bergstaðastræti 70 var teiknað á árunum 1957-58 af Skarphéðni Jóhannssyni arkitekt fyrir Hjalta Geir Kristjánsson og Sigríði Th. Erlendsdóttur. Auk þess að vera gott dæmi um byggingarlist Skarphéðins og vel varðveitt hús, utan sem innan, hefur Bergstaðastræti 70 sérstakt gildi sem nútímalegt hús frá 6. áratugnum sem hannað er á farsælan hátt í klassíska, reykvíska götumynd og er sem slíkt gott dæmi um hvernig fella má nýtt að gömlu. Einkennandi í útliti þess eru skýrt afmarkaðir glugga-, efnis- og litafletir sem mynda samstillda heild. Jafnframt er hvert atriði í útliti hússins jafnframt þaulhugsað út frá innra skipulagi og notagildi hvers herbergis.
Ákveðið var að friðlýsa húsið í tilefni þess að í ár eru liðin 100 ár frá fæðingu Skarphéðins Jóhannssonar arkitekts.
Þingvallabæinn í Bláskógabyggð. Friðlýsingin tekur til ytra borðs bæjarins
Þingvallabærinn var byggður sem prestseturshús á árunum 1929-30 eftir uppdráttum Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins. Bærinn er kunnasta og merkasta dæmi um tilraunir Guðjóns til að endurskapa anda og fegurð íslenska torfbæjarins í nýju byggingarefni, steinsteypu, á 3. áratug 20. aldar. Upphaflega var húsið þrjár burstir með torfi á þekjum. Þök bæjarins reyndust vera of brött fyrir torfið og voru því fjótlega klædd með eir. Árið 1970 var ákveðið að stækka bæinn og var bætt við tveimur burstum til suðurs sem voru teknar í notkun 1974. Í nyrstu burstinni er aðstaða fyrir Þingallanefnd og þjóðgarðsvörð auk prests, en hinar fjórar burstirnar þjónuðu sem sumarbústaður og gestastofa forsætisráðherra. Bær og kirkja á Þingvöllum mynda saman mikilvæga, listræna heild. Ásýnd þessara húsa í stórbrotnu umhverfi Þingvalla er fyrir löngu orðin ómissandi þáttur í staðarmynd helgasta sögustaðar þjóðarinnar.
Hallgrímskirkju, Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Friðlýsingin tekur til ytra borðs kirkjunnar og kirkjuskips.
Hallgrímskirkja í Saurbæ var hönnuð og byggð á árunum 1954-57. Hún er ein markverðasta kirkjubygging eftirstríðsáranna, vel varðveitt og heilsteypt verk í listrænu tilliti. Þá er byggingin mikilvægt dæmi um höfundarverk arkitektanna Sigurðar Guðmundssonar og Eiríks Einarssonar þar sem þeir unnu með hefðbundið kirkjuform á nýstárlegan hátt með efnum og útfærsluatriðum samtíðar sinnar. Kirkjan var reist sem minningarkirkja um sálmaskáldið séra Hallgrím Pétursson (1614-1674) sem var prestur í Saurbæ á árunum 1651-1669. Efnt var til samkeppni um kirkjuteikningu í Saurbæ árið 1935 en ekki varð sátt um niðurstöðu hennar. Var Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins falið að teikna minningarkirkju sem átti að verða mun stærri en núverandi kirkja. Undirstöður að kirkju Guðjóns voru steyptar en ekki varð úr frekari framkvæmdum á grundvelli teikninga hans. Á 6. áratugnum var ákveðið að fela Sigurði og Eiríki að teikna minni kirkju sem að stæði að hluta til á sökklinum sem kominn var. Kirkjan er byggð úr steinsteypu en að innan eru veggir hlaðnir úr dönskum tígulsteini. Loft í kór er klætt með harðvið en þök að utan með eir. Í öllum gluggum kirkjuskips eru glermyndir eftir Gerði Helgadóttur. Á altarisvegg er freska eftir finnska listamanninn Lennart Segerstrale.
Ákveðið var að friðlýsa kirkjuna í tilefni þess að í ár eru liðin 400 ár frá fæðingu sr. Hallgríms Péturssonar.
Vatneyrarbúð, Aðalstræti 1 á Patreksfirði. Friðlýsingin nær til ytra borðs hússins.
Vatneyrarbúð, sem byggð var árið 1916, hefur ótvírætt varðveislugildi sem vitnisburður um atvinnusögu Patreksfjarðar bæði vegna upprunaleika og samhengis við önnur atvinnuhús í næsta nágrenni, vélsmiðju og salthús. Einnig vegna innanstokksmuna og minja sem tengjast rekstri í húsinu og sem varðveist hafa í heild sinni. Þá hefur húsið mikið umhverfisgildi í götumynd Aðalstrætis og staðarmynd Vatneyrarbyggðar.