Fara í efni

Opnun á nýrri yfirbyggingu á Stöng í Þjórsárdal

Yfirbyggingin á Stöng. ©Claudio Parada Nunes.
Yfirbyggingin á Stöng. ©Claudio Parada Nunes.

Þriðjudaginn 1. október fór fram opnun á nýrri yfirbyggingu skálans á Stöng í Þjórsárdal. Stofnunin fagnar þeim mikilvæga áfanga að lokið hefur verið við yfirbygginguna sem hönnuð var af arkitektunum Karli Kvaran og Sahar Ghaderi hjá SP(R)INT STUDIO. Magnús Guðmundsson, skrifstofustjóri í umhverfis- orku- og loftlagsráðuneyti, opnaði formlega húsið fyrir hönd ráðherra. Rúnar Leifsson, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, ávarpaði gesti og Karl Kvaran, arkitekt sagði frá hönnun hússins. Þá fræddi Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands, gesti um fornleifarnar á staðnum og sögu Þjórsárdals.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem byggt er yfir fornleifarnar á Stöng. Fljótlega eftir fyrstu fornleifarannsóknina á staðnum á fjórða áratug síðustu aldar var skýli reist yfir minjarnar þeim til verndar og miðlunar. Svo í annað sinn árið 1957 þegar skýlið var úr sér gengið. Fyrir rúmum áratug efndu Fornleifavernd ríkisins (nú hluti af Minjastofnun Íslands), ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu og Skeiða- og Gnúpverjahreppur til samvinnu um að bæta aðgengi að minjum í Þjórsárdal og miðlun upplýsinga um þær. Árið 2012 fékkst styrkur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og í kjölfarið efndi Fornleifavernd ríkisins, í samvinnu við Arkitektafélag Íslands, til hugmyndasamkeppni um tillögur að hönnun ásýndar og umhverfis fornleifa við Stöng í Þjórsárdal. Alls bárust þrettán tillögur í keppnina og voru úrslit kynnt í nóvember 2012. Dómnefnd var einhuga um að veita tillögu arkitektanna Karls Kvaran og Sahar Ghaderi 1. verðlaun.

Í vinningstillögunni kusu höfundarnir að afmarka minjasvæðið á bæjahólnum með samfelldum timburpalli sem í senn myndaði umgjörð um minjarnar og var um leið göngustígur og útsýnispallur. Af pallinum áttu gestir að geta notið fornleifa, náttúru og annars efnis sem miðlað er á svæðinu. Auk þessa var hugað að aðstöðu fyrir fræðimenn sem í framtíðinni kunna að vinna að rannsóknum á svæðinu. Gert var ráð fyrir því að yfirfæra mætti hugmyndina á aðra sambærilega minjastaði. Upphafleg hugmynd arkitektanna var að reisa nýtt hús yfir minjarnar en á seinni stigum verkefnisins var ákveðið að vinna frekar með form og burðargrind skýlisins sem fyrir var á staðnum fremur en að reisa alveg nýja yfirbyggingu. Í stað bárujárns á þaki er notast við gagnsætt báruplast (polycarbonate) sem veitir dagsbirtu inn í rýmið. Stór gluggaop eru á göflum sem opna sýn inn að skálarústinni. Á austurgafli eru dyr að innisvölum þaðan sem horfa má yfir fornleifasvæðið.

Lagður hefur verið nýr stígur með þægilegum halla frá áningarstað og bílastæði við nýja göngubrú og áfram upp brekkuna að bæjarhólnum. Minjastofnun Íslands vinnur að fræðsluefni og miðlun fyrir svæðið.

Framkvæmdir við yfirbyggingu skálarústarinnar hófust í ágúst 2023 og var þeim að fullu lokið ári síðar. Verktaki við smíði húss og jarðvinnu var Langeldur ehf. VSB verkfræðistofa sá um burðarþolshönnun.

Með byggingunni er stórt skref stigið í minjavernd, aðkomu og aðstöðu gesta sem koma í tugþúsundatali á ári hverju til að berja augum þær einstöku minjar frá víkingaöld sem er að finna á Stöng og þekktar eru langt út fyrir landsteinana.

„Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja,

án fræðslu þess liðna sést ei, hvað er nýtt.“

                                  - Einar Benediktsson

 

 

Menningarlandslag í Þjórsárdal og fornleifarannsókn á Stöng 2023

Stærstur hluti byggðarinnar í Þjórsárdal fór í eyði snemma á miðöldum en skógurinn var nýttur áfram til kolagerðar og járnvinnslu langt fram eftir öldum en engu að síður slapp dalurinn við rask af völdum seinni tíma landbúnaðar og vélvæðingar. Rúmlega 20 fornbýli hafa verið skráð í dalnum, sem eru að mestu óröskuð af mannavöldum, en hins vegar býsna illa farin eftir glímutök náttúruaflanna í aldanna rás. Bæjarstæði Stangar er hluti umfangsmikillar minjaheildar í Þjórsárdal og árið 2020 urðu þau merku tímamót að dalurinn var friðlýstur í heild sinni sem búsetu- og menningarlandslag. Það er í fyrsta skipti í sögu minjaverndar á Íslandi sem svo stórt svæði er friðlýst. Tilgangur friðlýsingarinnar er að varðveita og vernda heildstætt en viðkvæmt menningarlandslag til framtíðar en jafnframt að greiða fyrir miðlun og rannsóknum.

Framkvæmdir á minjastöðum kalla á fornleifarannsóknir og Stöng er þar ekki undanskilin. Þar sem nýja yfirbyggingin yfir skálarústina er stærri en sú sem fyrir var, þurfti að grafa 4 metra til austurs. Við fornleifarannsókn á því svæði kom í ljós lítil bygging sem virðist vera eldri en skálinn sjálfur en var þó í notkun um nokkurt skeið á sama tíma og búið var í skálanum. Svo virðist sem innangengt hafi verið úr byggingunni inn í eldri skála sem vísbendingar eru um að sé að finna undir þeim sem nú er sýnilegur (sbr. rannsóknir Þjóðminjasafnsins á 9. og 10. áratugum síðustu aldar). Frekari rannsókna er þörf til að skilja að fullu samband hinnar nýfundnu byggingar við önnur mannvirki á bæjarhólnum.

 

 

Sérstakar þakkir

Minjastofnun Ísland þakkar Landsáætlun um uppbyggingu innviða og umhverfis- orku og loftslagsráðherra fyrir að fjármagna þessa björgunarframkvæmd. Án skilnings og framsýni stjórnar sjóðsins hefði verkefni þetta ekki orðið að veruleika. Stofnunin þakkar einnig Framkvæmdasýslu ríkiseignum og Exa Nordic fyrir utanumhald og Langeldi ehf. fyrir glæsilega framkvæmd og gott samstarf á vettvangi. Strá – jarðvinnuverktökum, Heimi Ólafssyni í Glóru fyrir stígagerðina, Sigurði Unnari Sigurðssyni verkfræðingi, Hannesi Erni Jónssyni hjá VSB og fornleifafræðingunum Ragnheiði Gló Gylfadóttur og Sólveigu Guðmundsdóttir Beck hjá Fornleifastofnun Íslands ses.

Svipmyndir frá opnuninni 1. október