Fara í efni

Opnun smáforrits um sögu Reykjavíkurhafnar - Minjaslóð

Laugardaginn 2. júní kl. 14, á Hátíð hafsins, verður opnað nýtt smáforrit um sögu hafnarsvæðisins í Reykjavík sem kallast Minjaslóð. Við opnunina ávarpa Kristín Soffía Jónsdóttir, stjórnarformaður Faxaflóahafna, og Guðbrandur Benediktsson, safnstjóri Borgarsögusafns Reykjavíkur, viðstadda og að því loknu mun Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, opna smáforritið formlega. Opnunin fer fram á stóra sviðinu við Grandagarð.

Vonumst við til að sjá sem flesta!

Minjaslóð er smáforrit, fyrir Apple og Android, sem inniheldur bæði Minjaleit og Minjaslóð. Minjaleit er fjársjóðsleit fyrir yngri kynslóðina þar sem unnið er með sögu hafnarsvæðisins í Reykjavík. Minjaslóð inniheldur fimmtán upplýsingapunkta á hafnarsvæðinu í Reykjavík þar sem hægt er að fræðast um höfnina, sögu hennar og hlutverk, s.s. í tengslum við fullveldi og aukið sjálfstæði Íslands.

Að smáforritinu standa Faxaflóahafnir, Borgarsögusafn Reykjavíkur og Minjastofnun Íslands í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands og Menningararfsári Evrópu 2018.


Hér að neðan eru frekari upplýsingar um aðstandendur smáforritsins:

Faxaflóahafnir sf.
Faxaflóahafnir hóf starfsemi sína 1. janúar 2005. Fyrirtækið rekur hafnir og hafnarþjónustu á Akranesi, Borgarnesi, Grundartanga og Reykjavík. Reykjavíkurhöfn skiptist í tvo hluta; Gömlu höfnina og Sundahöfn.
– Gamla höfnin er aðallega notuð fyrir löndun á sjávarafla, skipaviðgerðir og fyrir smærri farþegaskip.
– Sundahöfn er fjölþætt flutningahöfn og er notuð fyrir stærri farþegaskip.
– Grundartangi er iðnaðarhöfn að öllu leiti.
– Akranes er löndunarhöfn.

Borgarsögusafn Reykjavíkur
Hlutverk Borgarsögusafns er að safna, skrásetja, varðveita og rannsaka menningaminjar sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar og miðla fjölbreyttri sögu borgarinnar á forvitnilegan hátt, vekja fólk til umhugsunar, vera skapandi og skemmtilegt. Sýningarstaðir safnsins eru í Árbæjarsafni, Landnámssýningunni í Aðalstræti, Sjóminjasafninu í Reykjavík, Ljósmyndasafni Reykjavíkur og Viðey, auk þess sem starfsemi safnsins er sýnileg með öðrum hætti, t.d. með sögugöngum, útgáfu og menningarmerkingum í borgarlandinu.

Minjastofnun Íslands
Minjastofnun Íslands hefur yfirumsjón með verndun fornleifa- og byggingararfs á Íslandi. Stofnunin er stjórnsýslustofnun sem heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og annast framkvæmd minjavörslu í samræmi við ákvæði laga um menningarminjar. Minjastofnun Íslands er skipt í fjögur svið: rannsókna- og miðlunarsvið, umhverfis- og skipulagssvið, minjavarðasvið og skrifstofu. Meðal verkefna stofnunarinnar eru leyfisveitingar, umsagnir, eftirlit og ráðgjöf fegna fornminja og byggingararfs, leyfisveitingar vegna útflutnings á gripum sem og umsýsla og úthlutun úr tveimur sjóðum, fornminjasjóði og húsafriðunarsjóði.