Fara í efni

Ráðstefna um húsvernd og endurgerð húsa - Restaureringsseminar í Danmörku

Í lok janúar tóku tveir arkitektar Minjastofnunar Íslands þátt í ráðstefnu um húsvernd og endurgerð húsa, hinni árlegu Restaureringsseminar í Danmörku, sem skipulögð er af Minjastofnun Danmerkur, Slots- og Kulturstyrelsen, í samvinnu við arkitektaskólana í Árósum og Kaupmannahöfn.

 

Ráðstefnan er sannkölluð samkoma sálufélaga þar sem fjallað er um viðfangsefnið ”verndun byggingararfsins” út frá ákveðnu þema hverju sinni. Erindin takast á við efnið bæði á hugmyndafræðilegum og heimspekilegum grunni, auk þess sem fjallað er um ákveðin verkefni, þar sem nánar er komið inn á áskoranir vegna breyttra framleiðslu- og byggingaraðferða og reynir á handverks- og efnisþekkingu og skilning verkkaupa. Á meðal mælenda að þessu sinni voru fulltrúar Minjastofnunar Danmerkur, lektor við Arkitektaskólann í Kaupmannahöfn, formaður húsafriðunarnefndar í Danmörku, doktorsnemi í arkitektúr við arkitektaskólann í Árósum, starfandi arkitektar sem sögðu frá nýlegum verkum sínum og fulltrúi fasteignafélags ásamt sérhæfðum járnsmið, o.fl..

Dagskrá ráðstefnunnar má finna hér.

Ráðstefnan var haldin í Konunglega bókasafninu, Svarta demantinum í Kaupmannahöfn.

 

Þema ráðstefnunnar í ár var ”Nýleg fortíð” (d. Den nære fortid), sem kallast á við þema Ársfundar Minjastofnunar Íslands árið 2023, Yngri minjar- áskoranir og tækifæri, og endurspeglar þær spurningar sem blasa við um 20. aldar byggingararf sem nú þegar hefur að einhverju leyti misst hlutverk sitt og samhengi vegna samfélagsþróunar.

Yfir 500 manns tóku þátt, fræddust og styrktu tengsl sín á milli á þessari ráðstefnu og ljóst er að þótt viðfangsefnið sé stórt og oft og tíðum flókið, þá tekst fjöldi fræðimanna, arkitekta og handverksfólks á við það í sameiningu.

Í tengslum við ráðstefnuna áttu fulltrúar Minjastofnunar fundi með kollegum hjá Minjastofnun Danmerkur, ásamt helstu sérfræðingum Danmerkur í húsvernd, viðgerðum og varðveislu.

 

Raadvad, gamalt iðnaðarþorp rétt norðan við Kaupmannahöfn, þar sem í dag eru starfrækt ýmis fyrirtæki sem sérhæfa sig í ráðgjöf um endurgerð gamalla húsa og byggingarefna.

Sjósundsaðstaða Kastrup Søbad sem reist var árið 2005, eftir White arkitekta og var tilnefnd til Mies van der Rohe verðlauna árið 2007.

Grundtvigskirkja reist á árunum 1921-1940 eftir P.V. Jensen Klint. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins fjallaði um kirkjuna í grein í Vísi árið 1942 í tengslum við byggingu Hallgrímskirkju.

Í járnsmiðjunni Raadvad Smedie, voru skoðuð mismunandi gluggajárn og rætt við sérfræðinga um mismunandi möguleika á viðgerðum og endurnýtingu.

Friðlýst bensínstöð, reist árið 1937 eftir Arne Jacobsen arkitekt. Byggingin er táknmynd fyrir fúnkisstefnu í Danmörku og hlaut Europa Nostra verðlaunin árið 2006.

Frederiksberg Svømmehal, mynd fengin að láni frá heimasíðu Cornelius Vöge, arkitekt sem sá um endurgerðina sem lauk árið 2024. Hægt er að lesa meira um verkefnið hér.