Fara í efni

Skálholt - Skyndifriðun

 

Húsafriðunarnefnd ákvað á fundi sínum þriðjudaginn 8. nóvember 2011, í samræmi við 8. gr. laga um húsafriðun 104/2001, að grípa til skyndifriðunar Skálholtsskóla, Skálholtskirkju og nánasta umhverfis, sbr. 4. gr. sömu laga.

Í bréfi húsafriðunarnefndar til biskups Íslands, hr. Karls Sigurbjörnssonar, dags. 20. september 2011, er getið mikillar fjölmiðlaumræðu um þá ákvörðun að endurbyggja Þorláksbúð í Skálholti. Í ljósi þess að 20. aldar byggingar í Skálholti teljast hafa mikið varðveislugildi, óskaði nefndin að fá teikningar að fyrirhugaðri tilgátu Þorláksbúðar til umsagnar ásamt þeim greinargerðum, skýrslum og áætlunum sem fyrir kynnu að liggja, þó að ekki sé um friðaðar byggingar að ræða.

Jafnframt er í bréfinu greint frá því að húsafriðunarnefnd muni á næsta fundi sínum sem haldinn verði fyrrihluta októbermánaðar fjalla um málið og ef ástæða þykir til lýsa skoðun sinni.

Umrædd gögn voru send húsafriðunarnefnd, bæði boðsent og í tölvupósti, dags. 11. október 2011.

Á 7. fundi húsafriðunarnefndar, sem haldinn var í Skálholti þann 13. október 2011, var tekin fyrir fyrirhugðuð endurgerð Þorláksbúðar í Skálholti. Eftirfarandi bókun var samþykkt og send Kirkjuráði með afriti til vígslubiskups í Skálholti og byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar:

Skálholt er tvímælalaust meðal merkustu staða á Íslandi með hliðsjón af menningarsögu þjóðarinnar. Auk sögulegra minja eru þar tvær af vönduðustu byggingum 20. aldar á Íslandi sem hafa mikið gildi í byggingarlistasögu okkar. Þetta eru annars vegar Skálholtskirkja, sem Hörður Bjarnason húsameistari ríkisins teiknaði árið 1956, og hins vegar Skálholtsskóli, sem Manfreð Vilhjálmsson og Þorvaldur S. Þorvaldsson arkitektar teiknuðu árið 1970. Í útfærslu sinni á Skálholtskirkju hafði Hörður hliðsjón af Brynjólfskirkju sem stóð í Skálholti frá 1650 til 1807, krosslöguð, með þverskipi og hliðarskipum. Skálholtskirkja er einstaklega glæsileg í sínum einfaldleika og látleysi. Við hönnun Skálholtsskóla höfðu arkitekarnir fyrri tíða þorpsmynd í Skálholti í huga. Byggingunni er skipt upp í minni hús með tengigangi og til að árétta mikilvægi samræmis í byggingum í Skálholti var skólinn hafður í sömu litum og kirkjan.

Vegna þessa hárfína jafnvægis sem skapað hefur verið í Skálholti og myndar eitt fegursta manngerða umhverfi nútíma byggingarlistar á landinu, ber að fara mjög varlega í allar breytingar og íhuga gaumgæfilega hvaða áhrif þær hafa á grenndina. Þar af leiðandi telur Húsafriðunarnefnd málið falla undir lögsögu nefndarinnar, sbr. 3. og 4. gr. í lögum nr. 104/2001 um húsafriðun.

Verði að endurbyggingu Þorláksbúðar telur Húsafriðunarnefnd að þetta fína samspil 20. aldar bygginga raskist og er því mælst til þess að bygging tilgátu (í raun er ekki um tilgátuhús að ræða þar sem ekki er nákvæmlega fylgt eftir stærðum fyrirliggjandi rústar)  að Þorláksbúð verði fundinn nýr staður í Skálholti, þar sem áhrif þess á núverandi ásýnd Skálholtsstaðar verði hóflegri.

 

Í bókun Kirkjuráðs frá fundi þess þann 2. nóvember s.l. segir eftirfarandi um málefni Þorláksbúðar:

Samkvæmt bókun kirkjuráðs frá 21. september 2011 var málið kannað, en fyrir liggur af hálfu skipulags- og byggingaryfirvalda Bláskógabyggðar að byggingarleyfi verði gefið út. Í ljósi þeirrar könnunar gerir kirkjuráð ekki athugasemdir við að Þorláksbúðarfélagið ljúki framkvæmd verksins. Biskup sat hjá við afgreiðslu málsins.

 

Eins og áður segir hefur húsafriðunarnefnd, í ljósi alls þessa, samþykkt, í samræmi við 4.gr. og 8.gr. laga um húsafriðun 104/2001, að grípa til skyndifriðunar Skálholtskirkju (1956), Skálholtsskóla (1970) og nánasta umhverfis. Með nánasta umhverfi er átt við allt hið opna svæði sem tengir saman þessar tvær byggingar og myndar hið hárfína jafnvægi sem telst eitt fegursta manngerða rými nútíma byggingarlistar á Íslandi. Vönduð hönnun umræddra bygginga og samspil þeirra gerir það að verkum að þær kallast á yfir þetta opna svæði með hætti sem ekki er talið að megi rjúfa með fyrirhugaðri endurbyggingu Þorláksbúðar. Tekið skal fram að húsafriðunarnefnd gerir ekki athugasemd við það að tilgátuhús, sem taki mið af Þorláksbúð, verði reist í Skálholti að undangenginni tilhlýðilegri rannsókn, en telur að henni þurfi að finna annan stað þar sem áhrif þess á núverandi ásýnd Skálholtsstaðar verði hóflegri.