Skáli Ferðafélags Íslands í Hvítárnesi hefur verið friðaður
Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, skála Ferðafélags Íslands í Hvítárnesi, Bláskógabyggð, 15. september 2010, að tillögu Húsafriðunarnefndar.
Friðunin nær til ytra byrðis skálans.
Skálinn var byggður á árunum 1929-1930 og er um að ræða fyrsta sæluhús sem Ferðafélag Íslands reisti. Skálinn er klæddur panil að innan en er að utan í gömlum íslenskum stíl; grjót- og torfveggir á hliðum en stafnar og þak eru nú klædd bárujárni. Á báðum stöfnum eru auk þess útskornar vindskeiðar. Byggingarstíll skálans ber merki þeirrar þjóðernisrómantíkur sem ríkti undir lok sjálfstæðisbaráttunnar.
Jón J. Víðis mælingamaður teiknaði skálann, en Jakob Thorarensen skáld annaðist alla trésmíði og Jón Jónsson bóndi að Laug í Biskupstungum hlóð útveggi.