Fara í efni

Tvö ný bindi í ritröðinni Kirkjur Íslands

 

Í tilefni þess að út eru komin tvö ný bindi – hið fimmtánda og sextánda – í ritröðinni Kirkjur Íslands býður Húsafriðunarnefnd, Þjóðminjasafn Íslands, Biskupsstofa, Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmi og Hið íslenska bókmenntafélag til útgáfukynningar í safnaðarheimili Stykkishólmskirkju föstudaginn 3. september kl. 17,00.

 

Á kynningunni mun Þorsteinn Gunnarsson ritstjóri gera grein fyrir útgáfunni og tveir höfundar, þeir dr. Árni Björnsson þjóðháttafræðingur og Guðmundur L. Hafsteinsson arkitekt, flytja stutt erindi um efni bókanna. Að því búnu mun sr. Gunnar E. Hauksson prófastur opna sýningu um kirkjur, gripi og minningarmörk sem byggir á ritverkinu.

 

Kirkjur Íslands er grundvallarrit um friðaðar kirkjur á Íslandi þar sem horft er á þær frá sjónarhóli byggingarlistar, stílfræði og þjóðminjavörslu. Í máli og myndum er fjallað um kirkjurnar sjálfar ásamt kirkjugripum og minningarmörkum. Kirkjur Íslands eru glæsilegar listaverkabækur sem opna sýn inn í mikilvægan þátt í íslenskri menningarsögu. Til útgáfunnar var stofnað í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku á Ísland. Áætlað er að bókaflokkurinn verði 26 bindi og útgáfunni ljúki 2015.

 

Að útgáfunni standa Húsafriðunarnefnd, Þjóðminjasafn Íslands og Biskupsstofa. Meðútgefandi og dreifingaraðili er Hið íslenska bókmenntafélag.