Tvö ný bindi í ritröðinni Kirkjur Íslands eru komin út
KIRKJUR ÍSLANDS er grundvallarrit um friðaðar kirkjur á Íslandi þar sem horft er á þær frá sjónarhóli byggingarlistar, stílfræði og þjóðminjavörslu. Í máli og myndum er fjallað um kirkjurnar sjálfar ásamt kirkjugripum og minningarmörkum. Komin eru út bindi 21 og 22, sem fjalla um friðaðar kirkjur í Þingeyjarprófastsdæmi, sem sameinað var Eyjafjarðarprófastsdæmi árið 2010 en áður hefur verið fjallað um kirkjur þar í þessari ritröð.
Í 21. bindi er sagt frá níu kirkjum: Einarsstaðakirkju, Flateyjarkirkju, Grenivíkurkirkju, Hálskirkju, Illugastaðakirkju, Laufáskirkju, Ljósavatnskirkju, Lundarbrekkukirkju og Skútustaðakirkju. Höfundar eru Björn Ingólfsson rithöfundur og fræðimaður, Haraldur Þór Egilsson safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri, Hjörleifur Stefánsson arkitekt, Hörður Ágústsson listmálari og fræðimaður, Mörður Árnason íslenskufræðingur og alþingismaður og Sverrir Haraldsson kennari og sagnfræðingur.
Í Illugastaðakirkju, sem Jón Sigfússon á Sörlastöðum smíðaði, er prédikunarstóll eftir Guðmund Guðmundsson frá Bjarnastaðahlíð. Árni Hallgrímsson frá Garðsá smíðaði kirkjuna á Einarsstöðum sem á fagurt íslenskt altarissilfur frá 17. öld. Steinhlöðnu kirkjuna á Lundarbrekku, sem Jakob Frímann Brynjólfsson teiknaði, prýðir altaristafla eftir Ásgrím Jónsson listmálara. Flateyjarkirkja var upphaflega byggð á Brettingsstöðum en flutt í eyna um miðja síðustu öld og endurbyggð í breyttri mynd af Björgvini L. Pálssyni. Ljósavatnskirkju reisti Björn Jóhannesson bóndi á Ljósavatni en Skútustaðakirkja er verk Þórarins Benjamínssonar frá Akurseli. Grenivíkurkirkja, sem Snorri Jónsson á Akureyri smíðaði, hýsir muni eftir Valtý Pétursson listmálara. Kirkjurnar á Hálsi og í Laufási eru hugverk Tryggva Gunnarssonar forsmiðs og síðar bankastjóra; í þeirri fyrrnefndu er kirkjuklukka frá miðöldum, í þeirri síðarnefndu getur meðal annars að líta forkunnarfagran, útskorinn prédikunarstól sem Illugi Jónsson bóndi í Nesi í Höfðahverfi við Eyjafjörð smíðaði 1698.
Í 22. bindi er fjallað um átta kirkjur: Garðskirkju, Grenjaðarstaðarkirkju, Húsavíkurkirkju, Neskirkju í Aðaldal, Sauðaneskirkju, Skinnastaðarkirkju, Svalbarðskirkju og Þverárkirkju. Höfundar eru Björn Ingólfsson rithöfundur og fræðimaður, Hjörleifur Stefánsson arkitekt, Sigrún Kristjánsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Þingeyinga, Sverrir Haraldsson kennari og sagnfræðingur og Völundur Óskarsson sagnfræðingur.
Svalbarðskirkja er með elstu timburkirkjum landsins, reist 1848 af Gísla Þorsteinssyni timbursmið, í henni er dönsk vængjatafla frá 17. öld. Í Skinnastaðarkirkju, sem Þórarinn Benjamínsson frá Akurseli smíðaði, er upphafleg skrautmálning eftir Arngrím Gíslason málara og skírnarfontur eftir Ágúst Sigurmundsson myndskera. Árni Hallgrímsson frá Garðsá smíðaði kirkjuna á Grenjaðarstað, hún á altarisstjaka úr tini frá 17. öld. Sauðaneskirkja á Langanesi, sem Björgólfur Brynjólfsson snikkari teiknaði, skartar merkilegum prédikunarstóli frá 1765. Steinkirkjuna á Þverá, verk Jakobs Frímanns Brynjólfssonar, prýðir undurfögur altaristafla eftir Arngrím Gíslason málara. Timburkirkjan í Garði, sem Stefán Erlendsson í Ólafsgerði byggði, var hjúpuð steinsteypu um miðja síðustu öld, þar er altaristafla eftir alþýðumálarann Sveinunga Sveinungason. Neskirkja í Aðaldal er dæmigert sveitserhús og blæfögur utan sem innan, forsmiður hennar var Eiríkur Þorbergsson. Húsavíkurkirkja er stærsta krosskirkjan sem Rögnvaldur Ólafsson húsameistari teiknaði, sannkallað byggingarlistaverk og kórónan á lífsstarfi hans. Í henni getur að líta altaristöflu eftir Svein Þórarinsson og tréskurðargripi eftir Jóhann Björnsson.
Bækurnar eru prýddar fjölda ljósmynda, sem Ívar Brynjólfsson ljósmyndari Þjóðminjasafns hefur tekið, og teikningum af öllum kirkjunum, ýmist frumteikningum eða mælingarteikningum. Bókin er gefin út með styrk frá Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.