Fara í efni

Vegna fréttaflutnings síðustu daga og vikur um aldur hafnargarðsins í Reykjavík

Minjastofnun Íslands vill vekja athygli á því, eins og fram kemur í rökstuðningi fyrir tillögu að friðlýsingu sem send var ráðherra 24. september sl., að gildi garðsins er ekki einskorðað við aldur hans heldur hefur hann gildi sem hluti þeirra umfangsmiklu og mikilvægu framkvæmda sem hafnargerðin í Reykjavík var. Stofnunin vill leggja áherslu á eftirfarandi atriði:


1.      Ef það hefði verið öruggt að garðurinn væri búinn að ná 100 ára aldri þá hefði ekki verið þörf á að ráðast í friðlýsingarferlið.

2.      Garðurinn er auk þess ekki friðlýstur á forsendum aldurs, heldur vegna þess að hann er hluti af sögu hafnargerðar sem átti sér stað á árabilinu 1913-1917, jafnvel þótt hann hafi verið færður um nokkra metra 1928. Má líkja tilfærslunni á garðinum við það þegar hús hafa verið færð á milli landshluta, stundum oftar en einu sinni, en halda samt sem áður sinni aldursfriðun og minjagildi. Samkvæmt því, heldur garðurinn gildi sínu sem hluti af hafnargerðinni 1913-1917.

3.      Hafnargerðinni lauk ekki 1917, heldur voru ýmsar viðbætur sem áttu sér stað á árunum 1920-1945 og hafa ýmis mannvirki frá því tímabili verið friðlýst (sjá meðfylgjandi greinargerð).  Gerir þetta að engu þau rök að ekki eigi að friðlýsa umræddan garð af því hann hafi ekki náð 100 ára aldri.

4.      Hafnargerðin í heild er mikilvægur hluti af þróun núverandi borgarmyndar Reykjavíkur sem fer af stað eftir eftir miðja 19. öld og stendur fram á miðja 20. öld, en fram að því var Reykjavík smábær sem samanstóð, að mestu, af lítilli húsaþyrpingu við Aðalstræti og Hafnarstræti (gamla kaupstaðarlóðin), sem var umkringd sveitabæjum. Er mikilvægt að gildi hafnarmannvirkjanna sé metið út frá þessu samhengi, frekar en að horfa til aldurs þeirra.

Í rökstuðningum segir orðrétt:

Hafnargerðin í Reykjavík á árunum 1913-17 var á sínum tíma stærsta verklega framkvæmd sem ráðist hafði verið í hér á landi. Tvær eimreiðar voru m.a. fluttar til landsins til að flytja jarðefni úr Öskjuhlíð og Skólavörðuholti. Vegna seinni tíma uppfyllinga hefur lítið varðveist af sýnilegum ummerkjum um þessa merku framkvæmd.

Garðurinn á lóð Austurbakka 2 er hluti þessara umfangsmiklu framkvæmda. Hann afmarkaði Tryggvagötu til sjávar og meðfram honum lá hluti járnbrautarteina einu járnbrautarinnar sem lögð hefur verið á Íslandi. Árið 1928 var járnbrautin lögð af, teinarnir teknir upp og Tryggvagata breikkuð m.a. með því að færa garðinn sjö metra út í höfnina, þó án þess að breyta hlutverki hans eða útliti.

Sá hluti hafnargarðsins sem komið hefur í ljós er það heillegasta sem eftir stendur af hinu sögulega mannvirki. Vesturendi hans tengdist Steinbryggjunni við enda Pósthússtrætis, sem var borgarhlið höfuðstaðarins á árunum 1884-1939.

Lega garðsins, ásamt Tryggvagötu frá tollhúsinu að Geirsgötu, vitnar um fyrri tíðar strandlínu miðbæjarkvosarinnar og bæjarmynd Reykjavíkur í upphafi 20. aldar þar til fyllt var upp í bugtina milli Miðbakka og Austurbakka 1939. Garðurinn er mjög heill þó greinilegt sé að efstu (steinlímdu) steinaraðirnar hafi verið fjarlægðar. Hleðslan er svipuð að gerð og aðrar hleðslur og garðar í höfninni frá sama tíma með tilhöggnu grjóti efst og grjóthnullungum neðar. Í garðinum eru járnkeðjur sem notaðar voru til að festa skip.

Garðurinn er gerður af hagleik og ber verkkunnáttu og stórhug Reykvíkinga síns tíma gott vitni. Garðurinn er tilkomumikið og fallegt mannvirki, vitnisburður um samgöngusögu og þróun Reykjavíkur á svæði þar sem flestar fyrri tíðar minjar eru horfnar.

Öllum öðrum sýnilegum hlutum gömlu hafnarinnar var friðlýst árið 2012.


Fornminjanefnd, ráðgjafanefnd Minjastofnunar Íslands, fjallaði um tillögu að friðlýsingu hafnargarðsins á fundi sínum þann 23. september sl. og samþykkti einróma eftirfarandi bókun:

 

Garðurinn er gerður af  hagleik og ber verkkunnáttu og stórhug Reykvíkinga síns tíma gott vitni. Að mati nefndarinnar leikur ekki nokkur vafi á að vernd hans og sýnileiki myndi auðga miðbæinn bæði í menningarlegu og fagurfræðilegu tilliti. Augljós gildi hans á þeim sviðum skyldi síst vanmeta þegar kemur að ferðamennsku og þeim hagsmunum sem henni tengjast.

Hann er hluti  mannvirkja sem eru mikilvægur þáttur í atvinnu- og samgöngusögu Íslands. Hafnargerðin gegndi lykilhlutverki í uppbyggingu Reykjavíkurborgar og var forsenda fyrir þéttbýlisþróun í Reykjavík. Líta má á hafnargerðina í heild sinni sem fyrstu verklegu stórframkvæmd á Íslandi og þessi hluti hennar skipti þar ekki minnstu máli.

Tilfærsla garðsins árið 1928 dregur ekki úr gildi hans enda ekki um byggingu nýs mannvirkis að ræða, einungis tilfærslu og hélt garðurinn upprunalegu hlutverki sínu og útliti.

Nefndin mælir eindregið með friðlýsingu og varðveislu garðsins.

 

 

Hér má sjá stutta greinargerð um sögu hafnargerðar í Reykjavík, merkt hefur verið með rauðu þau atriði sem snúa beint að garðinum sem nú hefur komið ljós.