Fara í efni

Verkamannabústaðirnir við Hringbraut friðaðir

 

Með vísan til 4. og 5. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, Verkamannabústaðina við Hringbraut í Reykjavík 17. mars 2011, að tillögu Húsafriðunarnefndar.

 

Verkamannabústaðir-nyFriðunin nær til allra þriggja áfanganna, sem byggðir voru á árunum 1931 til 1937 og tekur til garðveggja og ytra byrðis eftirtalinna húsa:

           

            Ásvallagötu 33, 35, 37, 39, 49, 51, 53, 55, 57, 59, 61, 63 og 65

            Brávallagötu 42, 44, 46, 48 og 50

            Bræðraborgarstígs 47, 49, 53 og 55

            Hofsvallagötu 15, 16, 17, 18, 19, 20, 21, 22 og 23

            Hringbrautar 52, 54, 56, 58, 74, 76, 78, 80, 82, 84, 86, 88 og 90

 

Eftir fyrri heimsstyrjöld fór umræðan um húsakost verkafólks hátt um alla Evrópu. Góður arkitektúr skyldi ekki vera munaður hinna betur settu heldur ættu allir að eiga kost á vönduðum húsakosti og heilsusamlegu umhverfi. Á Íslandi var Guðmundur Hannesson læknir fyrstur til að taka upp þessa umræðu og Guðjón Samúelsson benti skömmu síðar á nauðsyn þess að stofna hér byggingarfélagsskap. Væri það forsenda þess að almenningur hefði aðgang að vönduðu og heilsusamlegu húsnæði. Árið 1930 efndi hið nýstofnaða Byggingarfélag alþýðu til samkeppni, sem þá var nýmæli á Íslandi, um hönnun húsa á reit sem afmarkaðist af Hringbraut, Bræðraborgarstíg, Ásvallagötu og Hofsvallagötu. Fór svo að Húsameistara ríkisins var falið verkefnið og hannaði Guðjón Samúelsson húsin í samræmi við þær hugmyndir sem hann og Guðmundur Hannesson höfðu áður kynnt. Fyrir utan nýjungar í skipulagi húsanna, bæði hvað varðar ytra og innra umhverfi, kom þar í fyrsta skipti í hýbýlum alþýðufólks sérstakt baðherbergi, með vatnssalerni og baðkeri inni í íbúðunum. Þótti þetta mikill munaður. Sex árum síðar reisti Byggingarfélag alþýðu fleiri hús austan Hofsvallagötu eftir teikningum Gunnlaugs Halldórssonar arkitekts. Þessi hús eru talin merk straumhvörf í íslenskri byggingarlist, en þarna var í fyrsta skipti reist íbúðabyggð í anda stefnunnar sem kennd er við nútímann, módernisma.

 

Umræddar byggingar eru einstakar í íslenskri byggingarlistasögu og eru til vitnis um stórhug og bjartsýni þjóðVerkamannabustadir-Gomul-mynd-[02]arinnar í upphafi nýrrar aldar.

 

Auk Verkamannabústaðanna hefur mennta- og menningarmálaráðherra einnig friðað mannvirki á Héðinsvelli við Hringbraut. Friðunin nær til ytra byrðis leikvallarskýlisins og garðveggja umhverfis leikvöllinn.