Viðbrögð vegna neyðarstigs almannavarna
[Uppfærð frétt – áður birt undir heitinu „Viðbrögð vegna hættustigs almannavarna“ 5.3.2020]
Vegna yfirlýsts neyðarstigs almannavarna í tengslum við útbreiðslu COVID-19 í heiminum og staðfest smit á Íslandi hefur öllum vinnuferðum starfsmanna Minjastofnunar til útlanda verið aflýst og mælst til þess að starfsmenn fari ekki í ferðir á eigin vegum inn á skilgreind smitáhættusvæði. Einnig var málþingi sem halda átti í Reykjavík þann 3. mars, í tengslum við Adapt Norther Heritage verkefnið sem Minjastofnun er aðili að, aflýst af sömu ástæðu.
Starfsmönnum er uppálagt að halda fundahaldi og ferðum innanlands í algeru lágmarki og skal t.a.m. aflýsa öllum þeim fundum inni á skrifstofum stofnunarinnar sem ekki eru bráðnauðsynlegir. Mikilvægi funda er metið í samráði við forstöðumann. Einnig verða fundir sem starfsmenn Minjastofnunar hafa boðað til utan skrifstofa metnir og þeim mögulega aflýst.
Tilmæli um heimasóttkví eru nú þegar farin að hafa áhrif á starfsemi stofnunarinnar en reynt verður að halda þeim áhrifum í lágmarki. Minjastofnun er nokkuð vel í sveit sett þegar kemur að vinnu starfsmanna utan skrifstofurýmis, en starfsmenn geta flestir sinnt hluta af sínum störfum í gegnum tölvu og samskipti yfir internet. Það er því von okkar að ráðstafanir í samfélaginu, s.s. heimasóttkví starfsmanna, muni ekki hafa mikil áhrif á starfsemi stofnunarinnar. Áhrifin geta þó alltaf orðið einhver og þannig t.a.m. birst í frestun funda og hægari afgreiðslu einhverra mála.
Starfsmönnum er uppálagt að mæta ekki til vinnu kenni þeir sér meins og einnig geta stafsmenn sjálfir valið að vinna heima á meðan neyðarstig er í gildi. Hægt er að ná í alla starfsmenn í gegnum tölvupóst.
Minjastofnun leggur mikla áherslu á að vera ábyrg í sinni starfsemi og munum við fylgjast vel með tilmælum landlæknis og almannavarna og gera ráðstafanir í samræmi við þau tilmæli.