Fara í efni

Viðurkenning fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar

Viðurkenning
Viðurkenning

Á ársfundi Minjastofnunar Íslands sem haldinn var sl. föstudag, 4. desember, veitti stofnunin Vegagerðinni sérstaka viðurkenningu sína fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar. Þetta er í fyrsta sinn sem slík viðurkenning er veitt eftir að Minjastofnun tók til starfa í ársbyrjun 2013. Viðurkenningin er veitt Vegagerðinni fyrir frumkvæði að varðveislu og endurbyggingu sögulegra brúarmannvirkja á undanförnum árum. Fá tæknileg mannvirki hafa haft meiri þýðingu fyrir íslenskt samfélag en fyrstu brýrnar sem reistar voru yfir stórfljót landsins í lok 19. aldar og á fyrstu áratugum þeirrar 20. Því er það mikils virði að tekist hefur að bjarga mikilvægum dæmum um þróunarsögu íslenskra brúarmannvirka, m.a. einu stálhengibrúnni sem eftir er frá 19. öld og fyrstu steinsteypubrúnni sem reist var frá árinu 1907.