Viljayfirlýsing Minjastofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs
Þann 30. maí sl. undirrituðu forstöðumenn Minjastofnunar Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs viljayfirlýsingu um aukið samstarf stofnananna. Var yfirlýsingin undirrituð á góðviðrisdegi í Mývatnssveit, undir vökulu auga umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Tilgangur viljayfirlýsingarinnar er að efla samvinnu stofnananna tveggja með það að markmiði að auka upplýsingamiðlun um menningarminjar innan þjóðgarðsins og stuðla að vernd þeirra. Sérstök áhersla verður til að byrja með lögð á verkefni í Skaftafelli og Mývatnssveit.