Skuldaþing í Skuldaþingsey við Skjálfandafljót
Starfsmenn Minjastofnunar fóru á dögunum í Skuldaþingsey á Fljótsbakka við Skjálfandafljót, en þar er að finna friðlýstan þingstað með a.m.k. 30 þingbúðum. Búðirnar eru þakktar þykku lyngi og afar þýft er á svæðinu. Þær falla því mjög inn í umhverfið og ekki auðvelt fyrir almenning að koma auga á þær á jörðu niðri. Þar má einnig sjá gamlan árfarveg sem skiptir svæðinu í tvennt. Starfsmenn flugu flygildi (dróna) yfir svæðið í u.þ.b. eina og hálfa klukkustund og úr varð þrívíddarlíkan af þingstaðnum forna sem hægt er að skoða á síðu stofnunarinnar: Þrívíddarlíkön Minjastofnunar
Við úrvinnslu loftmynda í gerð þrívíddarlíkana notar stofnunin forritið Reality Capture og hér fyrir ofan má sjá skjáskot úr forritinu ásamt einni loftmynd sem notuð var við gerð líkansins.
Fyrir áhugasama bendum við á skýrslu um fornleifaskráningu í Skuldaþingsey og skýrslu um fornleifauppgröft á einni búðartóftinni, en samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar var búðin byggð eftir árið 950 og notkun hennar löngu hætt árið 1477.
Víðmynd af minjasvæðinu.
Loftmynd af þingbúðum og gamla árfarveginum sem skiptir svæðinu í tvennt. Þar hefur fólk sennilega farið um bæði gangandi og á hestum að þingstaðnum. Ef vel er að gáð má sjá starfsmenn Minjastofnunar standa á hól ofarlega hægra megin á myndinni, en skyldi þetta vera þinghóllinn þar sem dómar voru kvaddir?
Hér má einnig finna stutt myndband af þingbúðunum þegar flogið var yfir þingstaðinn: Skuldaþingstaður við Skjálfandafljót