Fara í efni

Útflutningur menningarverðmæta

 

EITT AF HLUTVERKUM MINJASTOFNUNAR ÍSLANDS ER AÐ ANNAST FRAMKVÆMD ÁKVÆÐA Í LÖGUM UM MENNINGARMINJAR NR. 80/2012 SEM FJALLA UM FLUTNING MENNINGARMINJA ÚR LANDI OG FRAMKVÆMD LAGA NR. 57/2011 UM SKIL MENNINGARVERÐMÆTA TIL ANNARRA LANDA.

Útflutningur menningarminja

Ekki má flytja úr landi menningarminjar sem teljast til þjóðarverðmæta nema með samþykki ráðherra. Til þjóðarverðmæta teljast hvers konar munir, gripir, myndir, skjöl, handrit og bækur í eigu opinberra stofnana, fyrirtækja, félagasamtaka eða einstaklinga sem hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenska þjóðmenningu.

Aðrar innlendar eða erlendar menningaminjar má heldur ekki flytja úr landi, nema formlegt leyfi Minjastofnunar Íslands komi til. Þetta á bæði við um tímabundinn og ótímabundinn útflutning. Einnig þarf að sækja um leyfi til útflutnings sýna úr fornleifauppgröftum eða úr gripum í eigu safna. Sótt er um leyfi til útflutnings á sérstöku eyðublaði, sjá hér: PDF?

Stofnunin hefur samráð við forstöðumenn safna og stofnana hér á landi sem varðveita þess konar muni sem mál snýst um hverju sinni áður en ákvörðun um leyfi til útflutnings er tekin. Helstu stofnanir og söfn:

  • Þjóðminjasafn Íslands
  • Listasafn Íslands
  • Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn
  • Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
  • Þjóðskjalasafn Íslands

© Árnastofnun 

Hvað eru menningarminjar/menningarverðmæti?

  1. Gripir sem teljast til þjóðarverðmæta í hverju því landi sem um ræðir, vegna listræns, menningarsögulegs eða fornleifafræðilegs gildis samkvæmt löggjöf eða reglugerðum viðkomandi ríkis; svo sem forngripir eldri en 100 ára, listgripir af öllu tagi sem eru eldri en 50 ára og ekki í eigu höfundar, bækur prentaðar fyrir 1500, bækur prentaðar á Íslandi fyrir 1800, skjalasöfn, húsgögn og samgöngutæki sem náð hafa tilteknum aldri svo fáein dæmi séu nefnd.
  2. Gripir sem eru hlutar opinberra safna samkvæmt safnskrá
  3. Gripir í eigu stofnana og trúfélaga

Minjastofnun Íslands er heimilt að koma í veg fyrir flutning menningarminja úr landi, án tillits til aldurs þeirra og verðgildis, ef minjarnar teljast til þjóðarverðmæta eða hafa að öðru leyti sérstakt gildi fyrir íslenska þjóðmenningu. Stofnunin getur stöðvað flutning þeirra úr landi um stundarsakir meðan leitað er umsagna sérfróðra manna.

Sækja um leyfi til útflutnings menningarminja

 

Skil menningarverðmæta til annarra landa

Ef menningarverðmæti frá öðrum löndum hafa verið flutt til Íslands með ólögmætum hætti ber íslenska ríkinu að tryggja skil þeirra.

Minjastofnun Íslands tekur við kröfum um skil menningarminja frá hlutaðeigandi stjórnvöldum í öðrum ríkjum og skal hafa náið samstarf og samráð við þau stjórnvöld í öðrum ríkjum er fjalla þar um leyfi til útflutnings menningarminja og um skil þeirra, svo og við fjölþjóðlegar stofnanir er láta sig þau mál varða. Þá skal stofnunin leitast við að upplýsa um vörslustaði menningarminja sem fluttar hafa verið til landsins með óheimilum hætti. Skulu lögregluyfirvöld aðstoða við þá leit ef þörf er á.

Tollyfirvöld eiga tafarlaust að tilkynna Minjastofnun Íslands um menningarminjar sem reynt hefur verið að flytja ólöglega til landsins.

Stofnunin leggur mat á verðgildi menningarminja og annast skil á menningarminjum til annarra ríkja. Við mat á verðgildi menningarminja og öðrum þáttum sem snerta minjagildi þeirra skal stofnunin hafa samráð við eftirfarandi stofnanir og söfn:

  • Þjóðminjasafn Íslands,
  • Listasafn Íslands
  • Náttúruminjasafn Íslands
  • Kvikmyndasafn Íslands
  • Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn
  • Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eða
  • Þjóðskjalasafn Íslands eftir því sem við á.

Ef þörf er á skal einnig leitað álits sérfræðinga er ekki starfa við stofnanir þær er hér um ræðir.

© Árnastofnun

 

Vegna útflutnings á menningarminjum - nánari skilgreining úr lögum

  1. Forngripi (gripir eldri en 100 ára) hvort sem þeir eru í eigu opinberra stofnana, fyrirtækja, félagasamtaka eða einstaklinga, án tillits til verðgildis.
  2. Hluta úr listrænum, sögulegum eða trúarlegum minjum er losaðir hafa verið frá þeim og eldri eru en frá 1900, án tillits til verðgildis.
    1. Málverk og handgerðar myndir, aðrar en þær sem getið er í b- og c-lið þessa töluliðar og 4. tölul., úr hvaða efni sem er, ef þær eru eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
    2. Vatnslitamyndir, gvassmyndir, pastelmyndir og teikningar, gerðar í höndum að öllu leyti á hvaða efni sem er, ef þær eru eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
    3. Frumeintök af stungum, þrykki, silkiprenti og steinprenti, ásamt tilheyrandi plötum og frumgerð veggspjalda, séu verkin eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
  3. Mósaíkverk sem ekki falla undir 1. eða 2. tölul. og teikningar úr hvaða efni sem er séu myndverkin að öllu leyti handunnin, eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
  4. Frumeintök höggmynda eða myndastyttna og eftirmyndir þeirra sem eru gerðar með sömu aðferð og frumeintökin séu verkin eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra, enda falli þau ekki undir 1. tölul.
  5. Ljósmyndir og kvikmyndir og filmur eða glerplötur af þeim, enda séu þær eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
  6. Bækur, prentaðar á Íslandi fyrir 1800, svo og íslensk handrit, eldri en frá árinu 1800, stök eða sem safn, án tillits til verðgildis.
  7. Önnur handrit, þar með talin landabréf og raddskrár, stakar eða sem safn, sem eru eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
  8. Aðrar bækur, eldri en 100 ára, stakar eða sem safn.
  9. Prentuð landabréf, eldri en 200 ára.
  10. Skjalasöfn hvers konar og hluta þeirra, úr hvaða efni sem er, svo sem dagbækur, handrit, skýrslur, fundargerðabækur og skissubækur, eldri en 50 ára.
  11. Dýrafræðileg, grasafræðileg, jarðfræðileg eða líffræðileg söfn og safneintök og sömuleiðis söfn sem hafa gildi fyrir sagnfræði, steingervingafræði, mannfræði eða myntfræði.
  12. Samgöngutæki og sérstök/söguleg atvinnutæki, eldri en 75 ára.
  13. Aðrar íslenskar menningarminjar, sem ekki falla undir 1.–13. tölul., án tillits til verðgildis, þar á meðal húsgögn og innréttingar eða hluta úr þeim, frá 1900 eða eldri; hljóðfæri smíðuð á Íslandi, frá 1900 eða eldri; ílát, tæki og áhöld hvers konar úr tré, horni eða beini, með eða án útskurðar, frá 1900 eða eldri; búninga og fylgihluti þeirra, frá 1900 eða eldri; annan vefnað eða útsaum, frá 1900 eða eldri, og gripi úr silfri eða gulli, frá 1900 eða eldri.
  14. Aðrar erlendar menningarminjar, svo sem húsgögn, búshluti og skrautmuni, hljóðfæri, úr og klukkur, mælitæki, vopn og muni úr gulli, silfri eða fílabeini.

Vegna innflutnings eða skila menningarverðmæta til annarra landa - nánari skilgreining úr lögum

Í fyrsta lagi:

Gripir sem teljast til þjóðarverðmæta í landinu sem þeir hafa verið fluttir frá, vegna listræns, menningarsögulegs eða fornleifafræðilegs gildis samkvæmt löggjöf eða reglugerðum viðkomandi ríkis, og falla undir einhvern eftirfarandi flokka:

  1. Forngripir, eldri en 100 ára, sem fundist hafa í jörðu, vatni eða sjó við fornleifarannsóknir eða á annan hátt.
  2. Hlutar úr listrænum, sögulegum eða trúarlegum minjum er losaðir hafa verið frá þeim og eru eldri en 100 ára.
    1. Málverk og handgerðar myndir, aðrar en þær sem getið er um í b-lið þessa töluliðar og 4. tölul., úr hvaða efni sem er, ef þær eru eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
    2. Vatnslitamyndir, gvassmyndir og pastelmyndir, gerðar í höndum að öllu leyti á hvaða efni sem er, ef þær eru eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
  3. Mósaíkverk úr hvaða efni sem er og að öllu leyti handunnin, sem ekki falla undir 1. eða 2. tölul., og teikningar úr hvaða efni sem er séu myndverkin að öllu leyti handunnin, eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
  4. Frumeintök af stungum, þrykki, silkiprenti og steinprenti ásamt tilheyrandi plötum og frumgerð veggspjalda, séu verkin eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
  5. Frumeintök höggmynda eða myndastyttna og eftirmyndir þeirra, sem eru gerðar með sömu aðferð og frumeintökin, séu verkin eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra, enda falli þau ekki undir 1. tölul.
  6. Ljósmyndir og kvikmyndir og filmur eða glerplötur af þeim, enda séu þær eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda myndanna.
  7. Bækur, prentaðar fyrir 1500 (vögguprent), svo og handrit, þar með talin landabréf og raddskrár, stakar eða sem safn, sem eldri eru en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
  8. Aðrar bækur, eldri en 100 ára, stakar eða sem safn.
  9. Prentuð landabréf, eldri en 200 ára.
  10. Skjalasöfn hvers konar og hlutar þeirra, úr hvaða efni sem er, eldri en 50 ára.
    1. Dýrafræðileg, grasafræðileg, bergfræðileg eða líffræðileg söfn og safneintök.
    2. Söfn sem gildi hafa fyrir sagnfræði, steingervingafræði, mannfræði eða myntfræði.
  11. Samgöngutæki, eldri en 75 ára.
  12. Aðrar menningarminjar, eldri en 50 ára.

Í öðru lagi:

Gripir sem falla ekki undir neinn þeirra flokka sem taldir eru hér að ofan en eru hlutar opinberra minja- eða listasafna, bókasafna eða skjalasafna samkvæmt safnskrá,

Í þriðja lagi:

Gripir í eigu stofnana trúfélaga.