Fara í efni

Að virkja hugvit - nýr áfangastaður í Elliðaárstöð

Í tilefni af Menningarminjadögum Evrópu 2024 sem haldnir eru í september býður Elliðaárstöð gestum og gangandi í leiðsögn um Elliðaárstöð og nágrenni sunnudaginn 15. september kl. 15:00 - 16:00. Í leiðsögninni Að virkja hugvit - nýr áfangastaður í Elliðaárstöð segir Magnea Guðmundsdóttir, arkitekt úr hönnunarteyminu Tertu, frá hönnunarnálgun Elliðaárstöðvar. Gamla rafstöðin í Elliðaárdalnum markaði upphaf rafvæðingar í Reykjavík árið 1921. Í dag hefur húsaþyrping Elliðaárstöðvar fengið nýtt hlutverk sem vísindamiðlunar- og viðburðarsvæði. Þar sem vatnsorkan var virkjuð fyrr á tímum er nú hugvitið virkjað.
Innblástur hönnunarinnar er framsýni fyrri tíma og ósýnileg virkni veitukerfanna. Lagt er upp úr því að nýta það sem fyrir er á svæðinu í samhljóma við náttúruna.
Þátttaka er ókeypis en fólk er beðið um að klæða sig eftir veðri. Verið öll velkomin!