Allt upp á einn disk - Fornleifafræðileg tilraun á varðveislu lípíða í ólíkum efnivið
Allt upp á einn disk - Fornleifafræðileg tilraun á varðveislu lípíða úr ólíkum efnivið
Ármann Guðmundsson
Fornleifafræðingar rannsaka mataræði með margvíslegum hætti. Ein af aðferðunum eru rannsóknir og greiningar á lípíðum sem finnast aðallega í matarílátum. Lípíðar er fjölbreyttur hópur sameinda sem gegna margvíslegu hlutverki í náttúrunni. Allt frá því að vera byggingarefni frumuveggja til þekktra vítamína. Þó að lípíðar séu fjölbreyttur hópur eiga þeir það sameiginlegt að flokkast undir vatnsfælnar (e. hydrophobic) sameindir. Það er ein aðal ástæðan fyrir því hversu vel lípíðar varðveitast vel í fornleifafræðilegu samhengi.
Rannsóknir og greiningar á lípíðum eiga sér nokkuð langa sögu erlendis en fremur stutta á Íslandi. Hvað veldur er ekki gott að segja en hugsanlega er ástæðan sú að rannsóknir á lípíðum á tengslum við mataræði til forna tengist ákveðnum efnivið mun sterkari böndum en nokkrum öðrum. Víða hafa þessar rannsóknir nánast einblýnt á leirkerin enda lang algengasti efniviður matarílata mjög víða. Svo var hins vegar ekki raunin á Íslandi. Annar efniviður eins og viður og steinn voru algengari lengi vel framan af. Ef íslensk fornleifafræði ætlar að nýta sér lípíða greiningar í rannsóknum á mataræði þarf fyrst að komast að því hver varðveisla þeirra sé í öðrum efnum en leir. Í fyrirlestrinum verður greint frá rannsókn sem var hönnuð til að varpa ljósi á það viðfangsefni. Nú liggja frumniðurstöðurnar fyrir og margt áhugavert kom í ljós sem fjallað verður um á miðvikudaginn kemur.
Rannsóknin er fyrsti hluti doktorsnáms höfundar í fornleifafræði við Háskóla Íslands en viðfangsefnið er gildi lípíða greininga fyrir íslenska fornleifafræði.
Fyrirlesturinn er hluti af Nýjar rannsóknir í fornleifafræði 2025, fyrirlestraröð Félags fornleifafræðinga og námsbrautar í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn fer fram í stofu 202 í Odda, Háskóla Íslands. Einnig verður hægt að fylgjast með í streymi hér: https://us02web.zoom.us/j/85215880089?pwd=NF05NwGJPG23v1TOCJh6kK6r0aY8dv.1