Daglegt líf í Þjórsárdal hinum forna í ljósi efnismenningar
Daglegt líf í Þjórsárdal hinum forna í ljósi efnismenningar
Guðrún Alda Gísladóttir
Í Þjórsárdal er ein mest rannsakaða eyðibyggð á Íslandi. Um aldir hafa örlög þessarar fornu byggðar verið mönnum hugleikin en talið er að gos í Heklu árið 1104 hafi verið einn helsti áhrifavaldur í eyðingu byggðarinnar. Frá því á 19. öld hafa farið fram skipulegar fornleifarannsóknir víða í dalnum og áhugi einkum beinst að formgerð húsa og tímasetningu byggðarinnar, en minna að efnismenningu Þjórsdæla.
Við fornleifauppgrefti, fornleifakannanir og tilviljanakennda fundi hefur safnast mikið magn gripa frá tugum staða: Bæjarstæða, útstöðva, athafnasvæða, kumla, kirkjugarða og af víðavangi. Gripirnir, rúmlega 2000 talsins, eru fjölbreyttir að efni og gerð og tilheyra flestir víkingaaldar- og miðaldabyggð í Þjórsárdal þó hluti tengist seinni tíma umsvifum. Uppblástur hefur leikið minjar í dalnum grátt og einungis fáir staðir hafa verið grafnir upp kerfisbundið og heildstætt sem gerir það að verkum að vitneskja um fundarsamhengi einstakra gripa er takmarkað.
Engu að síður veitir hið brotakennda gripasafn innsýn í daglegt líf og störf hinna fornu Þjórsdæla; heima og heiman, innanstokks og utan, húsdýrahald, búskaparhætti, vopnaburð, nýtingu auðlinda, handverk og nýsköpun, sjálfsmynd og trúarlíf. Í erindinu verður fjallað um tilurð gripasafnsins, rannsókn þess, og samfélag fólks við hálendisjaðarinn á fyrstu öldum byggðar í landinu - eins og það endurspeglast í þeim gripum er það skildi eftir sig.
Fyrirlesturinn er hluti af Nýjar rannsóknir í fornleifafræði 2025, fyrirlestraröð Félags fornleifafræðinga og námsbrautar í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn fer fram í stofu 202 í Odda, Háskóla Íslands. Einnig verður hægt að fylgjast með í streymi hér: https://us02web.zoom.us/j/85215880089?pwd=NF05NwGJPG23v1TOCJh6kK6r0aY8dv.1