Dagur Kristjáns Eldjárns 6. desember
Dagskrá
Harpa Þórsdóttir ávarpar gesti
Guðrún Hildur Rosenkjær flytur erindið Af yðar mynd er Ísland kallað fjallkonan fríð
Í fyrirlestrinum verður fjallað um hugmynd Sigurðar ”málara” Guðmundssonar um nýjan þjóðbúning kvenna. Skautbúningur var fyrst borinn 1859 en náði fljótt gríðarlegum vinsældum um land allt. Í ljósi þess er áhugvert að skoða samstarf Sigurðar og kvennanna sem hann hvatti til dáða. Hverjar voru konurnar og hvernig leystu þær verkefnið að skapa þjóðbúning á fjallkonur Íslands? Skautbúningar bera í sér marglaga heimildir um framúrskarandi þekkingu, magnað handverk og listræn tilbrigði. Hver búningur er með sínu lagi eftir efnum og ástæðum, tísku og tíðaranda. Konur nutu tækifærisins að skapa magnaða búninga sem þær unnu af alúð, báru með stolti og gáfu af ástúð, þakklæti og virðingu. Hver og einn skautbúningur er sjálfstætt listaverk sem erfist á milli kynslóða, gjöf frá konum til kvenna, tákn um vináttu.
Guðrún Hildur Rosenkjær klæðskeri/kjólameistari og sagnfræðingur hefur unnið við þjóðbúningagerð og -kennslu frá 1997. Frá 2011 hefur hún ásamt manni sínum Ásmundi Kristjánssyni gullsmið, rekið fyrirtækið Annríki – Þjóðbúningar og skart. Ásamt námskeiðahaldi og verslunarekstri hafa þau hjón lagt mikla áherslu á rannsóknir á sögulegum búningum og skarti fyrri alda. Byggt á áratuga reynslu og þekkingu hafa þau endurgert fjölda búninga eftir fjölbreyttum heimildum sem nú er grunnur að búningasafni Annríkis sem spannar hátt í 300 ára sögu fatagerðar á Íslandi. Forseti Íslands veitti Guðrúnu Hildi riddarakross fálkaorðunnar 17. júní 2024 fyrir rannsóknir, miðlun og varðveislu menningar tengda íslenskum þjóðbúningum.
Ragnheiður Traustadóttir flytur erindið Spegill fortíðar: Höfðingjakonan í Firði og hlutverk kvenna
Í fyrirlestrinum verður fjallað um fornleifauppgröftinn í Firði, þar sem fundist hafa minjar sem varpa ljósi á líf og hlutverk kvenna á fyrri öldum. Sérstök áhersla verður lögð á kuml höfðingjakonunnar, haugfé hennar og einstakar textílleifar sem hafa varðveist. Auk þess verður rætt um gripi sem fundust í skálanum og tengjast vinnu og daglegu lífi kvenna í þessu mikilvæga samfélagi fortíðar.
Ragnheiður Traustadóttir er fornleifafræðingur og stjórnandi hjá Antikva ehf. Frá árinu 2020 hefur hún stjórnað fornleifarannsókninni í Firði á Seyðisfirði, þar sem umfangsmiklar rannsóknir hafa leitt í ljós mannvistarleifar allt frá landnámsöld til 20. aldar. Á árunum 2002 til 2013 var hún stjórnandi Hólarannsóknarinnar við Háskólann á Hólum, þar sem hún stýrði fornleifauppgreftri á Hólum, Kolkuósi og Keldudal auk vettvangsskóla í fornleifafræði í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann í Osló. Áður starfaði hún hjá Þjóðminjasafni Íslands frá 1994 til 2006 og sinnti fjölbreyttum verkefnum á sviði varðveislu og rannsókna á fornminjum víða um land.
Hægt verður að fylgjast með viðburðinum á youtube síðu Þjóðminjasafns Íslands: