Fornvistfræði selja í Svarfaðardal
Fornvistfræði selja í Svarfaðardal
Snædís Sunna Thorlacius
Seljabúskapur er talinn hafa flust til landsins með landnámsfólki og var stundaður um land allt uns hann leið undir lok um aldamótin 1900. Farið var með skepnur til selja á sumrin til þess að hlífa túnum yfir sumartímann og nýta úthaga til beitar. Flestar fornvistfræðilegar rannsóknir sem gerðar hafa verið hérlendis hafa átt sér stað á láglendi og við bæjartún en lítil áhersla verið lögð á seljasvæði, sem eru yfirleitt lengra inn til landsins og hærra yfir sjávarmáli. Í þessum fyrirlestri verða kynntar niðurstöður fornvistfræðilegrar rannsóknar á tveimur selstöðum í Svarfaðardal, Sökkuseli í landi Sökku og Selhjalla í landi Stóru-Hámundarstaða. Notast er við frjókornarannsóknir auk gjóskulaga- og setlagafræði til þess að endurskapa umhverfi og gróðurfar seljanna og greina þær umhverfisbreytingar sem hafa átt sér stað í nágrenni þeirra undanfarin 2000 ár. Á báðum stöðum var opinn birkiskógur fyrir landnám en á 10. öld varð mannlegra áhrifa vart, þó á ólíkan hátt. Hjá Sökkuseli varð mikil útbreiðsla víðikjarrs sem gæti verið afleiðing nýtingar á birki fram yfir víði. Gróðurbreytingar sem rekja má til beitar má sjá á báðum stöðum uns mólendið sem einkennir staðina í dag hóf innreið sína. Í Selhjalla átti sú þróun sér stað upp úr 1400 e.Kr. sem má mögulega rekja til fólksfækkunar.
Fyrirlesturinn fer fram í stofu 202 í Odda, Háskóla Íslands.