Fara í efni

Næsta stopp: Varðveisluhús Borgarsögusafns

Laugardaginn 21. september gefst einstakt tækifæri til að skoða eitt af varðveisluhúsum Borgarsögusafns á Esjumelum. Farið verður í tvær ferðir yfir daginn og lagt verður af stað með rútu frá Árbæjarsafni kl. 13:00 og 15:00. Athugið að skráning er nauðsynleg þar sem að sætafjöldi er takmarkaður. Vinsamlegast skráið ykkur í síðasta lagi miðvikudaginn 18. september. Ferðin tekur um 1,5 tíma, að keyrslunni meðtalinni. Þátttaka er gestum að kostnaðarlausu.

Skráning í ferð kl. 13:00 - 14:30 Skráning í ferð kl. 15:00 - 16:30

 

Borgarsögusafn varðveitir um 29.000 lausa muni, um 6 milljónir ljósmynda og um 4.000 muni sem tengjast sjósókn auk safnhúsa í Árbæjarsafni. Það sem í daglegu tali eru kallaðar geymslur, köllum við varðveisluhúsnæði, því þar fer fram vinna allt árið um kring. Safnið hefur yfir að ráða nokkrum svona húsum sem öll gegna mismunandi hlutverkum og hýsa mismunandi gerð hluta; allt frá skrúfjárnum, leikföngum og textíl, yfir í stærðarinnar verksmiðjuvélar og slökkviliðsbíla. Það eru einmitt þeir gripir – þessir stóru –  sem við varðveitum í nýjasta varðveisluhúsnæðinu okkar á Koparsléttunni. Safnið tók við því snemma sumars árið 2023 og eftir 5 vikur af flutningi á safngripum, þá erum við núna tilbúin til þess að opna upp á gátt og bjóða borgarbúum að koma og skoða. Enn er heilmikil vinna eftir við að skrá, þrífa, endurpakka, ljósmynda og rannsaka allt það sem þar er að finna, en það er einmitt það sem starfið innan varðveisluhúsnæðis á safni snýst um – allt árið um kring!

Viðburðurinn á Facebook ⇒ Næsta stopp: Varðveisluhús Borgarsögusafns