Spegill fortíðar - Silfur framtíðar
Fyrirlestrarröð Vitafélagsins - íslensk strandmenning
Næsti viðburður fer fram föstudaginn 28. febrúar kl. 20:00 í Breiðfirðingabúð, Faxafeni 1 í Reykjavík.
Fjörður, bærinn undir Bjólfi á Seyðisfirði
Ragnheiður Traustadóttir, fornleifafræðingur
Einstakur fundur varð á Seyðisfirði þegar bærinn undir Bjólfi í landi landnámsbæjarins Fjarðar fannst. Í fyrirlestri sínum beinir Ragnheiður athyglinni að þeim minjum sem eru frá 10. öld og fram á 14. öld en einnig að minjum frá 18. til fyrri hluta 20. aldar sem einnig hafa verið grafnar upp. Rannsóknirnar í Firði hafa leitt í ljós mannvistarleifar allt frá landnámsöld til 20. aldar. Á meðal þess sem fundist hefur eru; bátskuml, kvenkuml, hestskuml og karlkuml með hesti. Fjöldinn allur af gripum fannst í kumlunum sem gefur innsýn í líf fyrstu íbúanna í Firði.
Miðaldir eru lítið rannsakaðar á Íslandi og Austurland hefur alltof lítið verið rannsakað. Þessi uppgröftur hefur því mikla þýðingu.
Ragnheiður Traustadóttir er fornleifafræðingur og stjórnandi hjá Antikva ehf. Áður hefur Ragnheiður stjórnað fjölda rannsókna m.a. við Háskólann á Hólum, á Kolkuósi og í Keldudal auk þess hefur hún stjórnað vettvangsskóla í fornleifafræði í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann í Osló.
Allabaddarí fransí biskví. Um veiðar Frakka við Íslandsstrendur og uppbyggingu Franska spítalans á Fáskrúðsfirði
Þorsteinn Bergsson, framkvæmdastjóri Minjaverndar
Frakkar hófu þorskveiðar á Íslandsmiðum 1614 og stóðu þær yfir árlega fram að fyrri heimsstyrjöld 1914. Hvert umfang þeirra var fyrstu öldina er ekki vitað með vissu, en á árunum frá um 1760 til 1850 voru yfirleitt 40 til 100 skútur að veiðum.
Elín Pálmadóttir greinir frá því í bók sinni Fransí biskví að á árunum 1810 til 1914 hafi um 400 skútur farist við Ísland og með þeim um eða yfir 4000 sjómenn. Franski sjóherinn sendi spítalaskip til Íslands yfir vertíðir, en þau fórust líka. Splunkunýtt spítalaskip Sankti Páll strandaði t.d. í Meðallandsfjöru 1899. Alls voru þrír franskir spítalar á Íslandi; í Reykjavík á horni Lindargötu og Frakkastígs, (reist 1902) þar sem Tónmenntaskóli Reykjavíkur er nú, í Heimaey og á Fáskrúðsfirði.
Gísli Sigurgeirsson gerði heimildamyndina Allabaddarí fransí biskví um veiðar Frakka við Íslandsstrendur og uppbyggingu Franska spítalans á Fáskrúðsfirði sem Minjavernd stóð að af miklum myndarskap og er til vitnis um hvernig vernda má söguna og nýta til atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar. Þorsteinn Bergsson, framkvæmdastjóri Minjaverndar kynnir myndina og svarar spurningum.
Ókeypis er á viðburðinn og öll velkomin!