Fara í efni

Spegill fortíðar - Silfur framtíðar

Fyrirlestrarröð Vitafélagsins - íslensk strandmenning

Næsti viðburður fer fram fimmtudaginn 3. apríl kl. 20:00 í Breiðfirðingabúð, Faxafeni 1 í Reykjavík. 

Hafnir á Skaga, Dysnes við Eyjafjörð og aðrar minjar við sjávarsíðuna á Norðurlandi  

Sædís Gunnarsdóttir minjavörður Norðurlands eystra, Guðmundur Stefán Sigurðsson minjavörður Norðurlands vestra og Lísabet Guðmundsdóttir minjavörður Vestfjarða

Loftslagsbreytingar eru töluvert í umræðunni þessa dagana og áhrifa þeirra gætir svo sannarlega hér á landi. Aukin stormvirkni, fyrirsjáanleg hækkun sjávarmáls og aðrar öfgar í veðurfari leiða til þess að landbrot er að aukast við strandlengjuna. Á Íslandi er og var þorri búsetusvæða við sjó enda aðgangur og nýting sjávarauðlinda ein af forsendum þess að hér var búsetuhæft. Í dag eru minjastaðir við sjávarsíðuna í mikilli hættu vegna landbrots og því þarf aukinn kraft í fornleifaskráningu og rannsóknir áður en þessi menningarverðmæti og þekkingin um þau hverfur á haf út. Minjastofnun Íslands stóð fyrir fáum árum fyrir átaksverkefni í skráningu strandminja, að auki hafa rannsóknaráherslur verið að færast yfir á sjávarsíðuna. Minjaverðir á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og eystra ætla að fjalla um rannsóknir sem hafa átt sér stað við sjávarsíðuna á undanförnum árum sem sumar hverjar hafa leitt til þess að ómetanlegum menningarverðmætum hefur verið bjargað frá glötun.

Fegurð fjarða

Ida Semey, verkefnisstjóri

„Fegurð fjarða“ er list- og fræðslusýning sem verður haldin á átta stöðum við Eyjafjörð, Siglufjörð og Ólafsfjörð sumarið 2025. Verkefnið, sem samanstendur m.a. af; ljósmyndum eftir Veigu Grétarsdóttur, fræðslu um mengun, tónlist með Svavari Knút, listsköpun úr rusli og samfélagsviðburðum, hefur það að markmiði að auka vitund um umhverfisvernd og ábyrgð í umgengni við haf og strönd. Sýningin er unnin í samstarfi við heimamenn, listamenn og fræðimenn og stendur frá 2. júní til 1. október 2025. 

Ókeypis er á viðburðinn og öll velkomin!