Stöngin inn - sýning í Hegningarhúsinu
Sýningin STÖNGIN INN í Hegningarhúsinu verður haldin dagana 3. - 6. apríl í tilefni af HönnunarMars 2025. Þar munu gestir fá að sjá umbreytingar Stangarbæjarins og mikilvægi hans sem menningar- og fornminjastaðar í nútímasamhengi, þar sem fornleifafræði og arkitektúr haldast hönd í hönd.
Endurhönnun Stangarbæjarins - þáttarskil í opinberum byggingum hér á landi
Stangarbærinn hefur lengi verið einn kunnasti og fjölsóttasti fornminjastaður landsins. Bærinn eyddist í Heklugosi árið 1104 ásamt öðrum bæjum í Þjórsárdal, en fyrstu fornleifarannsóknir á staðnum hófust á fjórða áratug síðustu aldar. Fljótlega var reist skýli til verndar rústunum, en það varð fljótt úr sér gengið og var nýtt skýli reist árið 1957.
Í lok ársins 2024 lauk nýrri hönnun SP(R)INT STUDIO sem hefur sett Stangarbæinn í sérstöðu sem fyrsta minjastaðinn á Íslandi sem er hannaður heildrænt með áherslu á umhverfislega og félagslega sjálfbærni. Verkefnið fólst því ekki aðeins í því að hanna nýtt skýli yfir bæjarrústina heldur einnig aðkomu að minjastaðnum, bílastæði, salernisaðstöðu, brú yfir ánna, upplýsingamiðlun og gönguleið sem væri sem flestum aðgengileg og væri tenging staðarins við náttúruperlur og minjar á svæðinu.
Upphaflega verðlaunatillagan frá SP(R)INT STUDIO lagði áherslu á nýbyggingu, en þróun verkefnisins færði fókusinn að endurnýtingu byggingar og endurtúlkun rýmis í takt við nýjustu strauma í sjálfbærum arkitektúr. Ný yfirbygging á Stöng markar því ákveðin þáttarskil í opinberum byggingum hér á landi og vísar veginn til nýrra tíma aukinnar umhverfisvitundar þar sem fortíðinni er sýnd virðing og sagan nýtt sem efniviður í nýjar og frumlegar lausnir.
SP(R)INT STUDIO og Minjastofnun Íslands standa fyrir sýningunni. Sýningarstjórn: Karl Kvaran, arkitekt hjá SP(R)INT STUDIO, Pétur H. Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun Íslands, Dr. Rúnar Leifsson, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands og Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands hjá Minjastofnun Íslands.
Þessi viðburður er hluti af Menningarminjadögum Evrópu og er haldinn í tilefni af 50 ára afmæli Evrópska húsverndarársins.
Ókeypis er inn á sýninguna og öll velkomin!