Fara í efni

Minjaverndarviðurkenning

Í tengslum við ársfund sinn undanfarin ár hefur Minjastofnun Íslands veitt viðurkenningu aðila/aðilum sem þykja hafa skarað framúr á einhvern hátt í minjaverndarmálum. 

2023 - Fornverkaskólinn í Skagafirði

Á ársfundi Minjastofnunar Íslands 2023, þann 23. nóvember, veitti stofnunin Fornverkaskólanum í Skagafirði sérstaka viðurkenningu fyrir framlag þeirra til varðveislu á fornu byggingarhandverki.

Frá árinu 2007 hefur Fornverkaskólinn boðið upp á námskeið í gömlu byggingarhandverki með sérstaka áherslu á torf sem byggingarefni. Með námskeiðum sínum hefur skólinn miðlað þekkingu til áhugafólks og fagfólks innan minjavörslu á gömlu handverki og um leið stuðlað að varðveislu handverkshefða sem hafa verið á undanhaldi. Þekking á gömlum byggingaraðferðum er forsenda þess að hægt sé að halda við torfhúsaarfi þjóðarinnar. Fjölmargir erlendir aðilar sem starfa á sviði menningararfs hafa sótt Fornverkaskólann í gegnum árin. Oft á tíðum er sú þekking sem námskeiðin bjóða upp á ekki til staðar í þeirra heimalöndum og hefur Fornverkaskólinn því gegnt mikilvægu hlutverki á alþjóðavísu.

Fornverkaskólinn er á vegum Byggðasafns Skagfirðinga í samstarfi Tréiðnadeildar Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Háskólans á Hólum. Á undanförnum árum hefur skólinn fengið afnot af torfbæ ásamt útihúsum sem standa á Tyrfingsstöðum í Skagafirði og hefur viðhald bæjarins orðið viðfangsefni skólans á námskeiðum hans. Með Tyrfingsstaðaverkefninu og námskeiðum Fornverkaskólans hefur markvisst verið unnið að endurheimt og uppbyggingu torfbæjarins ásamt tilheyrandi útihúsum í túninu, í samvinnu við ábúendur.

Við óskum Fornverkaskólanum innilega til hamingju með viðurkenninguna og þökkum öllum þeim aðilum sem koma að þessu mikilvæga brautryðjendastarfi í þágu minjaverndar á Íslandi.

2020 - Þorsteinn Gunnarsson

Minjastofnun Íslands veitti Þorsteini Gunnarssyni, arkitekt, árlega minjaverndarviðurkenningu á ársfundi stofnunarinnar 26. nóvember 2020. Viðurkenninguna hlýtur Þorsteinn fyrir mikilvægt brautryðjendastarf á sviði endurgervingar sögulegra bygginga og fyrir áratuga rannsóknir á íslenskri húsagerðarsögu.

Þorsteinn Gunnarsson lauk námi í húsagerðarlist frá arkitektaskóla Konunglega danska Listaháskólans í Kaupmannahöfn árið 1966. Hann var fyrstur Íslendinga til að útskrifast úr þeirri deild skólans sem sérhæfir sig í endurgervingu gamalla húsa og könnun eldri byggðar.

Screenshot_20201127-102107_Video-Player-2-

Delphi

Samhliða náminu í Kaupmannahöfn var Þorsteinn við sérnám í byggingafornleifafræði við École francaise d´archéologie d´Athénes í Grikklandi frá 1963 til 1964. Verkefni hans, sem var hluti af viðameiri fornleifarannsókn, fólst í ýtarlegri rannsókn og nákvæmri uppmælingu á leikhúsinu í Delfí.

Að loknu arkitektanámi vann Þorsteinn við byggingarrannsóknir á vegum Þjóðminjasafns Dana í Kaupmannahöfn og teiknistofu Inger & Johannes Exner í Kaupmannahöfn. Þorsteinn fluttist til Reykjavíkur árið 1967 og hóf rekstur eigin teiknistofu. Með komu Þorsteins til starfa urðu þáttaskil í húsverndarmálum hér á landi. Sem fyrsti íslenski arkitektinn með sérmenntun í byggingarsögulegum rannsóknum og endurgervingu gamalla húsa innleiddi hann ný og fagleg vinnubrögð í þessum greinum hér á landi.

Það má segja að hægt sé að rekja upphaf þess að farið var að gera húsakannanir í tengslum skipulagsgerð til vinnu Þorsteins fyrir Reykjavíkurborg er hann var nýkominn heim úr námi. Hann gerði þá húsakönnun á einum reit í gamla Austurbænum, og vakti það athygli Páls Líndals þáverandi borgarlögmanns og formanns skipulagsnefndar Reykjavíkur, á þessum unga arkitekt.

Stjórn Árbæjarsafns hafði um það leyti viðrað þá hugmynd við borgaryfirvöld að nauðsynlegt væri að fá yfirlit yfir hús í Reykjavík sem flytja þyrfti í safnið í framtíðinni eins og Hörður Ágústsson segir svo frá í riti sínu Íslensk byggingararfleifð:

„Þegar Páll leit vinnubrögð Þorsteins sem ekki höfðu sést hér áður, urðu viðbrögð hans við tillögum stjórnar þau að hann lagði til að gerð yrði allsherjarkönnun á varðveislugildi gamla miðbæjarins og unnin í samvinnu Árbæjarsafns og skipulagsyfirvalda Reykjavíkurborgar.“ (H.Á. Íslensk byggingararfleifð II; bls. 195)

Úr varð að Þorsteinn var fenginn til þess að vinna húsakönnun í gamla bænum í Reykjavík með Herði Ágústssyni, listmálara, sem þá sat í stjórn Árbæjarsafns. Verkefnið var unnið á árunum 1967 til 1970 og var fyrsta húsakönnun sinnar tegundar sem gerð var hér á landi.

Forsaga og forsenda þessarar fyrstu húsakönnunar í Reykjavík var að þá hafði borgarstjórn Reykjavíkur nýlega (1965) samþykkt fyrsta aðalskipulag fyrir borgina. Aðalskipulag Reykjavíkur 1962-1983 byggði á hugmyndum þess tíma um algjöra endurnýjun byggðar í gömlum miðbæjum, sem myndi, ef skipulaginu yrði fylgt, hafa í för með sér stórfellt niðurrif gamalla húsa. Markmið húsakönnunarinnar var fyrst og fremst að meta gildi þeirra húsa sem skyldu víkja og gera tillögu að því hver þeirra myndu henta til varðveislu í Árbæjarsafni. Niðurstaða húsakönnunar þeirra Harðar og Þorsteins vakti athygli á þeim verðmætum sem í byggðinni í gömlu Reykjavík væru fólgin og varð upphaf að umræðu um verndun húsa í miðbæ Reykjavíkur. Húsvernd var komin á dagskrá. Húsakönnun þeirra Harðar og Þorsteins hafði mikil áhrif og til hennar má rekja baráttu fyrir verndun gamallar byggðar í borginni. Skal þar þá sérstaklega nefnda húsaröðina við Lækjargötu, sem þá var farið að nefna Bernhöftstorfu, sem Arkitektafélag Íslands fylgdi eftir og síðar Torfusamtökin.

Með skipulagslögum sem sett voru árið 1997 var fyrst sett ákvæði um að gera skyldi húsakönnun þegar unnið er deiliskipulag í þegar byggðu hverfi.

Húsakannanir hafa haft mikið gildi fyrir verndun byggðar um allt land. Þær hafa orðið til þess að opna augu stjórnvalda og almennings fyrir gildi byggingararfs og átt þátt í því að sjónarmið húsverndar hafa öðlast viðurkenningu. Og eins og hér hefur verið rakið er þáttur Þorsteins þar mikill.

Eitt af fyrstu verkefnum Þorsteins Gunnarssonar á sviði endurgervingar húsa var endursmíði Viðeyjarstofu og kirkju sem hann vann að ásamt Leifi Blumenstein. Viðgerð á stofnunni hófst árið 1969 í kjölfarið á kaupum ríkissjóðs á eigninni. Vinnu við ytra borð stofunnar lauk árið 1975 en síðan var löng bið á framhaldi verksins sökum fjárskorts. Árið 1986 ákvað Sverrir Hermannsson, menntamálaráðherra, að ríkið gæfi Reykjavíkurborg stofuna gegn því að borgin sæi um að ljúka endanlegum frágangi á húsum og lóð. Vinna við verkefnið hófst á ný skömmu síðar og lauk því með miklum myndarbrag 18. ágúst 1988. Við endurgerð stofu og kirkju í Viðey varð víða að leita fanga, m.a. vann Þorsteinn ítarlega rannsókn á verkum Nicolai Eigtved og fleiri danskra húsameistara á 18. öld í því skyni að geta rétt í eyður varðandi útfærslur og efnisval.

Dagskra-arsfundar-2020

Holadomkirkja

Næsta verkefni á eftir Viðey var endurreisn Hóladómkirkju sem hófst með hönnun og rannsóknarvinnu árið 1987 en framkvæmdir hófust snemma árs 1988. Lokið var við endurbætur innanhúss í desember sama ár en frágangi utanhúss í ágúst 1989.

Meðal endurbóta á ytra borði var að sementsmúr sem settur hafði verið utan á veggi kirkjunnar var fjarlægður og kalkmúr settur í hans stað, en rauði hleðslusteinninn úr Hólabyrðu látinn njóta sín á forkirkju og umgerð um frúardyr.

Í kjölfar Hóladómkirkju kom yfirgripsmikil rannsókn og endurreisnaráætlun fyrir þriðja merka steinhúsið frá 18. öld; Bessastaðastofu á Álftanesi. Stofan átti sér flóknari breytingasögu en hin húsin tvö sem taka varð tillit til, svo sem þær endurbætur sem Gunnlaugur Halldórsson, arkitekt, stóð fyrir þegar Bessastaðir urðu ríkisstjórasetur árið 1941. Auk Bessastaðastofu endurhannaði Þorsteinn önnur hús forsetasetursins í samvinnu við Garðar Halldórsson, húsameistara ríkisins, af virðingu fyrir þeirri staðarmynd sem Gunnlaugur hafði skapað og öll þjóðin þekkir. Framkvæmdum á Bessastöðum lauk árið 1996.

Systurbygging Bessastaðastofu, landlæknishúsið á Nesi við Seltjörn, mátti muna fífil sinn fegurri þegar Þorsteinn hófst handa við endursmíð hennar og aðlögun útihúsa að breyttri notkun árið 1978. Viðgerðin, sem fór fram á vegum Þjóðminjasafns Íslands, var unnin í áföngum á löngu árabili. Vinnu við vesturenda lauk 1986 en eystri helmingur og ris voru kláruð árið 2008.

Í Nesstofu var sú stefna mörkuð að færa húsið að öllu leyti til upphaflegs horfs, innan sem utan. Gefur húsið með sínu bikaða timburþaki sannferðugasta mynd af því hvernig steinhúsin íslensku litu út á 18. öld.

 

Nesstofa

Í miðborg Reykjavíkur kom Þorsteinn Gunnarsson að endurbótum á tveimur sögufrægum steinbyggingum, báðum að stofni til frá 18. öld. Ber fyrst að nefna endurreisn Dómkirkjunnar á árunum 1999–2000, þar sem meðal annars turn kirkjunnar var færður í upphaflegt horf, bekkir styttir og steingólf lagt á framkirkju og anddyri, auk margvíslegra endurbóta.

Hitt verkefnið voru endurbætur og viðgerðir á Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg sem líkt og í fyrri verkum Þorsteins byggðu þær á ítarlegri byggingarsögulegri rannsókn.

Auk húsa frá 18. öld hefur Þorsteinn Gunnarsson komið að endurbótum á yngri sögulegum byggingum um land allt sem of langt er að telja upp hér. Verðugt sýnishorn er hönnun hans á lengingu kirkjunnar á Sauðárkróki, helsta verki hins kunna skagfirska kirkjusmiðs Þorsteins Sigurðssonar.

Eitt er það verkefni Þorsteins á sviði endurgervingar sem enn hefur ekki raungerst, en það eru hugmyndir hans að endurreisn Landakirkju í Vestmannaeyjum frá árinu 2011. Viðfangsefnið var að vinda ofan af seinni tíma breytingum og benda á mismunandi leiðir til að færa form kirkjunnar nær sínum upprunastíl. Með Landakirkjuverkefninu má segja að Þorsteinn hafi komið að rannsókn og endurgerð allra þeirra níu steinhúsa sem reist voru hér á landi á 18. öld.

Sem arkitekt hefur Þorsteinn ekki aðeins komið að endurbótum á gömlum húsum. Árið 1972 vann hann tillögu að skipulagi safnsvæðis Árbæjarsafns ásamt safnhúsi í nýbyggingu sem ætlaður var staður fyrir enda traðarinnar heim að bæjarhúsunum á Árbæ.

Öllu viðameira nýbyggingarverkefni var hönnun Borgarleikhússins sem Þorsteinn vann að með arkitektunum Guðmundi Kr. Guðmundssyni og Ólafi Sigurðssyni á árunum 1974–1987. Það er á fárra vitorði að áhorfendasalurinn í leikhúsinu sækir hringform sitt í hið forna útileikhús í Delphi sem Þorsteinn mældi upp og rannsakaði snemma á 7. áratugnum og nýtti sem innblástur að hinu nýja leikhúsi Reykvíkinga í Kringlunni.

Picture7

 

Picture6

 

Í tengslum við endurgervingarverkefni sín og rannsóknir hefur Þorsteinn ritað fræðigreinar sem birst hafa ýmist í sjálfstæðum útgáfum eða safnritum. Helsta stórvirki hans á sviði fræðibóka er ritsafnið mikla um Kirkjur Íslands, sem Þorsteinn ritstýrði og út kom á árunum 2001-2018 á vegum Þjóðminjasafnsins, Minjastofnunar og Biskupsstofu. Í 31 bindi er fjallað um 216 friðlýstar kirkjubyggingar ásamt gripum þeirra og minningarmörkum. Það er vægt til orða tekið að kalla Kirkjur Íslands stórvirki á sviði rannsókna og útgáfu á fræðasviði byggingarlistarsögu hér á landi og þótt víðar væri leitað.

Í desember árið 2016 var öld liðin frá fæðingu dr. Kristjáns Eldjárns forseta Íslands og þjóðminjavarðar. Í tilefni þess ákvað Minjastofnun Íslands, í samráði við húsafriðunarnefnd, að gangast fyrir og kosta byggingarsögulega rannsókn á innréttingum Bessastaðakirkju á Álftanesi. Markmiðið með rannsókninni er að leggja fram tillögur er sýni mögulega valkosti um endurbætur og viðhald á innra borði kirkjunnar sem er eitt elsta og merkasta guðshús hér á landi. Í rannsókninni var leitast við að vega og meta ólíka kosti um endurgerð og framtíðarskipan innviða kirkjunnar með það að markmiði að draga fram og varðveita minjar um ólík tímaskeið í sögu staðar og kirkju en jafnframt skapa sannfærandi heildarmynd sem samboðin er aldri kirkjunnar, byggingarstíl og menningarsögulegu mikilvægi. Ekki verði einungis horft til upprunalegrar gerðar kirkjunnar heldur leitað leiða til að sætta andstæður og flétta saman í listræna heild minjar og gripi frá ólíkum tímabilum. Minjastofnun leitaði til Þorsteins Gunnarssonar, arkitekts, og kannað hug hans til að koma að verkefninu en fullyrða má að enginn núlifandi Íslendingur þekki byggingarlist þess tímabils og sögu Bessastaðakirkju betur en Þorsteinn en hann ritaði m.a. kafla um byggingarsögu kirkjunnar í ritið Kirkjur Íslands.

Samstarfsmenn Þorsteins við rannsóknir og tillögugerð voru arkitektanir Stefán Örn Stefánsson og Grétar Markússon og skiluðu þeir félagar ítarlegri skýrslu og vönduðum teikningum í lok árs 2017. Hægt er að segja að verkefnið sé mikilvægasta, ókláraða verkefni á sviði húsverndar hér á landi, jafnt með tilliti til byggingarlistar og menningarsögu.

Picture9

2019 - Hjörleifur Guttormsson

Minjastofnun Íslands veitti Hjörleifi Guttormssyni, náttúrufræðingi, sérstaka viðurkenningu fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar, á ársfundi stofnunarinnar 28. nóvember 2019. Viðurkenningin er veitt fyrir ötult starf í þágu minjaverndar um áratuga skeið.

Hjörleifur nam náttúrufræði í Þýskalandi og á hann sér fjölbreyttan starfsferil sem ómögulegt er að rekja í fáum orðum, en m.a. sinnti hann þingmennsku, sat í ráðherrastóli, sinnti landbúnaðarstörfum, skógrækt og landmælingum. Hjörleifur hefur beitt sér ötullega í þágu náttúruverndar og sat í Náttúruverndarráði um tíma auk þess sem hann stofnaði og rak Náttúrugripasafnið í Neskaupsstað svo örfá dæmi séu tekin. Hjörleifur átti frumkvæðið að stofnun Safnastofnunar Austurlands árið 1972 en það voru regnhlífarsamtök safna á vegum sveitarstjórna á Austurlandi og var hann stjórnarformaður Safnastofnunarinnar fyrstu sex árin. Hjörleifur beitti sér fyrir húsvernd á Austurlandi, m.a. fékk hann Hörð Ágústsson til að skrá og meta gömlu húsin á Seyðisfirði og beitti sér fyrir friðun Löngubúðar á Djúpavogi. Umhyggja Hjörleifs og seigla hans við að skrifa og miðla upplýsingum um fornleifar á Austurlandi og þáttur hans í fornleifaskráningu er ein af meginástæðum þess að hann hlýtur minjaverndarviðurkenningu Minjastofnunar árið 2019.

Auk þess sem Hjörleifur hefur skrifað um fornleifar og örnefni í átta Árbókum Ferðafélags Íslands um Austfirði og birt þar myndir af minjum þá hefur hann skrifað um fornleifar á öðrum vettvangi og átt samvinnu um skráningu þeirra við ýmsa fornleifafræðinga, þeirra á meðal Guðnýju Zoëga, Mjöll Snæsdóttur, Birnu Gunnarsdóttur, Ingu Sóley Kristjönudóttur, Ragnar Edvardsson og Bryndísi Zoëga.

Meðal þeirra greina sem Hjörleifur hefur birt um þá samvinnu eru:

Örnefni og þjóðminjar í Álftafirði

Hallormsstaður í Skógum. Náttúra og saga höfuðbóls og þjóðskógar

Krossanes við Reyðarfjörð – fornleifaskráning

Fornleifar og náttúruminjar í Hálsþorpi við Djúpavog.

Búsetuminjar á Hraundal í Útmannasveit.

Minjar um sjósókn í Héraðsflóa.

Seley við Reyðarfjörð. Náttúrufar, nytjar og fornleifar.

Í spor Jóns lærða. Greinar með fornminjauppdráttum

Fornleifaskráning á Héraði 2015.

Af þessari upptalningu má sjá að Hjörleifur er vel að viðurkenningunni kominn og fyrir hönd minjavörslunnar á Íslandi þökkum við honum innilega fyrir sitt framlag til minjaverndar í landinu.

2018 - Landeigendur á Láganúpi og í Kollsvík

Minjastofnun Íslands veitti landeigendum á Láganúpi og í Kollsvík, bræðrunum Valdimari, Guðbjarti, Hilmari, Agli og Kára Össurarsonum, sérstaka viðurkenningu fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar, á ársfundi stofnunarinnar 28. nóvember 2018. Viðurkenningin er veitt fyrir metnaðarfullt grasrótarstarf við varðveislu og miðlun menningararfs í Kollsvík.

Á meðal þeirra verkefna sem landeigendur í Kollsvík, með Valdimar Össurarson í fararbroddi, hafa unnið í þágu menningarminja á svæðinu, er gerð heimasíðunnar kollsvik.is þar sem finna má fjölbreyttan fróðleik um sögu, náttúru og minjar í víkinni.

Einnig hafa þeir séð um merkingu gönguleiða í Kollsvík og uppsetningu fræðsluskilta um sögu, fornminjar og mannvirki ásamt söfnun upplýsinga um óáþreifanlegan arf á borð við örnefni, þjóðhætti og safn málfarssérkenna sem varðveist hafa á svæðinu.

Jafnframt hafa þeir staðið að varðveislu og viðhaldi gamalla mannvirkja í Kollsvík og hafa hlotið styrki úr húsafriðunarsjóði til tveggja slíkra verkefna.

Annars vegar til endurbyggingar steinhlaðins torfkofa; Hesthússins á Hólum í landi Láganúps sem líkur eru til að upphaflega hafi verið reistur um miðja 17. öld. Ekki er vitað um eldra hús á landinu sem staðið hefur frá upphafi, og þjónað sínu hlutverki fram á þennan dag.

Hins vegar hafa þeir hlotið styrk til viðhalds hlaðinna garða á Grundabökkum í landi Láganúps, þaðan sem útgerð hófst mjög snemma. Garðar eru örnefni yfir hinn mikla og forna garð sem liggur með sunnanverðum Grundabökkum í landi Láganúps. Þar var áður Láganúpsver, sem um margar aldir var ein stærsta verstöð sunnanverðra Vestfjarða, en lagðist af í byrjun 18. aldar. Útgerð hófst síðar í Kollsvíkurveri, norðar í Kollsvíkinni. Fyrsta gerð garðanna má ætla að sé mjög forn en þeir voru hlaðnir í núverandi mynd um aldamótin 1900. Garðarnir hafa gegnt mismunandi hlutverkum tengdum sjósókn og búskap á jörðinni, meðal annars sem vörslugarðar, aðhald til fjárrekstra, þurrkgarðar, skjólgarðar, matjurtagarðar og skotbyrgi.

Nú síðast hafa aðstandendur svæðisins hlotið framlag úr samgönguáætlun árið 2018, til að koma upp sjóvarnargarði til verndunar áðurnefndum görðum og annarra minja við Láganúpsver í sunnanverðri Kollsvík.

Þetta framtak bræðranna úr Kollsvík má heita einstakt og er til mikillar fyrirmyndar.

2017 - Djúpavogshreppur

Minjastofnun Íslands veitti Djúpavogshreppi sérstaka viðurkenningu fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar á ársfundi stofnunarinnar þann 23. nóvember 2017. Viðurkenningin er veitt fyrir sérstaka áherslu á verndun menningararfs í stefnumörkun sveitarfélagsins á sviði skipulagsmála og atvinnuþróunar.

Djúpavogshreppur er byggðarlag með 452 íbúa. Samfélagið þar hefur á undanförnum árum átt í vök að verjast í atvinnumálum og hafa stjórnendur sveitarfélagsins þurft að bregðast við ýmsum afleiðingum þess. Engu að síður hafa þeir lagt metnað sinn í því að marka byggðarlaginu sérstöðu í skipulags- og atvinnumálum með því að leggja áherslu á sögulega arfleifð staðarins í allri stefnumótun sveitarfélagsins, en Djúpivogur er meðal elstu verslunarstaða landsins. Þýskir kaupmenn hófu þar kaupskap og byggðu þar verslunarhús við voginn árið 1589. Frá þeim tíma hefur kauptúnið verið miðstöð verslunar, útgerðar og annars athafnalífs á sunnanverðum Austfjörðum. Af sýnilegum minjum vega þyngst hin friðuðu og endurbyggðu verslunarhús 18. og 19. aldar, Langabúð og Faktorshúsið.

Í aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008-2020 var sett fram metnaðarfull húsverndarstefna og á grundvelli hennar lét sveitarfélagið vinna viðamikla húsakönnun sem lokið var við árið 2014. Könnunin var unnin af Teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur og er hún vandaðri og efnismeiri en flestar slíkar kannanir sem gerðar hafa verið hér á landi. Nær hún bæði til þéttbýlisins við voginn og dreifðari byggða við Álftafjörð, Hamarsfjörð og Berufjörð, auk Papeyjar, þar sem er að finna dæmi um sérstakt staðbundið byggingarlag sveitabæja frá fyrri tíð. Auk stefnumótunar hefur sveitarfélagið beitt sér fyrir og að hluta til kostað endurbyggingu þriggja gamalla húsa og er eitt þeirra, Geysir, nú ráðhús byggðarlagsins. Frumkvæði forráðamanna sveitarfélagsins á sviði húsverndar hefur orðið eigendum eldri húsa á staðnum hvatning til að gera upp hús sín og á þann hátt styrkja hina sögulegu ásýnd byggðarinnar.

Einnig var framkvæmd fornleifaskráning á svæðinu árið 2016 af Fornleifastofnun Íslands ses. og leiddi hún í ljós mikinn fjölda fornleifa á svæðinu, eða 51 fornleifar innan þess svæðis sem nú hefur verið skilgreint sem verndarsvæði í byggð. Saman felur þessi menningarsögulegi arfur í sér mikil tækifæri til verndar og uppbyggingar.

Þann 15. október 2017 staðfesti mennta- og menningarmálaráðherra tillögu Djúpavogshrepps um verndarsvæði í byggð : „Verndarsvæði við Voginn“ í samræmi í lög um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015. Verndarsvæði við Voginn er fyrsta tillaga að verndarsvæði í byggð sem staðfest er á Íslandi.

2015 - Vegagerðin

Á ársfundi Minjastofnunar Íslands þann 4. desember 2015, veitti stofnunin Vegagerðinni sérstaka viðurkenningu sína fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar. Þetta er í fyrsta sinn sem slík viðurkenning er veitt eftir að Minjastofnun tók til starfa í ársbyrjun 2013. Viðurkenningin er veitt Vegagerðinni fyrir frumkvæði að varðveislu og endurbyggingu sögulegra brúarmannvirkja á undanförnum árum. Fá tæknileg mannvirki hafa haft meiri þýðingu fyrir íslenskt samfélag en fyrstu brýrnar sem reistar voru yfir stórfljót landsins í lok 19. aldar og á fyrstu áratugum þeirrar 20. Því er það mikils virði að tekist hefur að bjarga mikilvægum dæmum um þróunarsögu íslenskra brúarmannvirka, m.a. einu stálhengibrúnni sem eftir er frá 19. öld og fyrstu steinsteypubrúnni sem reist var frá árinu 1907.