14. desember - Ártún/Suðurgata 14
Suðurgata 14 á Sauðárkróki er timburhús á einni hæð með risi, byggt árið 1890 en það voru hjónin Margrét Pálsdóttir og Magnús Guðmundsson verslunarmaður sem bjuggu þá í húsinu. Það var gjarnan kallað Magnúsarbúð eða Búðin og er eitt af elstu húsunum í Suðurgötu.
Ártún/Suðurgata 14 um 1950. Ljósmyndari: Kristján C. Magnússon.
Núverandi eigendur hússins fyrir framan Ártún árið 2015. Ljósmyndari: Berglind Þorsteinsdóttir.
Í Virðingabók fyrir Sauðárkrók árin 1916-1917 var húsinu lýst þannig:
„Húsið er ein hæð með risi.
Niðri eru tvö íbúðarherbergi, veggfóðruð og máluð og kompur í báðum. Eitt eldhús með eldavél, ein forstofa og einn forstofuskúr.
Á loftinu er eitt íbúðarherbergi og óinnréttað geymslupláss.
Í íbúðarherbergi, einn kabys (ofn).
Hlaðinn reykháfur og gengur rör frá eldavélinni í hann og rör frá kabysnum útum þekjuna.
Gluggar eru 7.“
Húsið var flutt frá Aðalstræti að Suðurgötu 14 árið 1919 þar sem það stendur enn í dag og hefur lengi verið kallað Ártún. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á því síðan og hefur það verið fært í upprunalegt horf en einnig hefur verið byggt við það til vesturs og inngönguskúr á norðurhlið. Endurbæturnar bera vott um fagleg vinnubrögð, sem hæfa aldri og anda hússins.
Ártún/Suðurgata 14. Myndirnar vinstra megin eru teknar árið 2017 en þær hægra megin snemma árs 2018. Ljósmyndari: Sigrún Benediktsdóttir.
Fyrir áhugasama má lesa nánar um Suðurgötu 14 og almennt um húsaflutninga á heimasíðu Guðlaugar Vilbogadóttur sem og Húsakönnun Sauðárkróks sem unnin var af Eyrúnu Sævarsdóttur og Sólborgu Unu Pálsdóttur.