2.desember - Saurbæjarkirkja
Talið er að kirkja hafi snemma risið í Saurbæ, þar var til að mynda klaustur stofnað í biskupstíð Brands Sæmundssonar Hólabiskups (1162-1201). Litlar upplýsingar eru um klaustrið í heimildum aðrar en þær að þar virðast aðeins hafa setið þrír ábótar, Þorkell Skúmsson, Eyjólfur Hallsson og Þorsteinn Tumason. Dánarár Þorkels er 1203 en Þorsteins 1224, bendir það til skamms starfstíma Saurbæjarklausturs.
Þegar séra Einar H. Thorlacius fluttist að Saurbæ var kirkja staðarins, sem reist hafði verið á árunum 1793-1794, enn stæðileg. Ummæli í vísitasíum benda til þess að kirkjan hafi alls ekki verið orðin hrörleg þegar ákvörðun um að reisa nýja kirkju var tekin árið 1857.
Árið 1856 farast prófastinum Guðmundi E. Johnsen svo orð um kirkjuna: „Þetta forna guðshús fyrirfinnst ennnú í sínum gömlu stöðvum og getur ennþá staðið lengi með sínum gömlu vexummerkjum. Að vísu er suðurveggurinn farinn að fyrnast og þyrfti því máske aðgjörðar við á sínum tíma."
Mynd frá 1959 (t.v.) og mynd frá 1898, tekin af Frederick W. Warbreck Howell (t.h), af Saurbæjarkirkju. Myndir af sarpur.is.
Síðsumars árið 1858 var ný Saurbæjarkirkja reist og var yfirsmiður hennar Ólafur Briem, timburmeistari á Grund. Ólafur var mikilvirkur forsmiður í Eyjafirði um sína daga en hann nam trésmíði í Kaupmannahöfn á árunum 1825-1831. Áhrifa úr klassískum byggingarstíl sem Ólafur hefur kynnst í Danmörku gætir í gerð og umbúnaði kirkjunnar. Þegar Saurbæjarkirkja var reist árið 1858 var kirkjugarðurinn utan um hana allur úr torfi og grjóti og nokkru minni en nú er. Klukknaport var í sáluhliði sem vísitasía 1846 getur á þessa leið: „Sálarhliðskampar eru vel upphlaðnir, og nýtt, sterkt og vandað klukknaport er nýsmíðað úr nýjum við.
Grunnmynd af Saurbæjarkirkju í mkv. 1:100. Mælt og teiknað Kolbrún Ragnarsdóttir arkitekt.
Saurbæjarkirkja er í dag stærst þeirra fáu torfkirkna sem varðveist hafa á landinu. Hún hefur verið í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá árinu 1962.
Upplýsingar hér að ofan eru fengnar úr Kirkjur Íslands. 10. bindi. Hægt er að lesa frekari upplýsingar um Saurbæjarkirkju á heimasíðu Minjastofnunar, húsasafni Þjóðminjasafnsins og byggingarlýsingu Guðmundar L. Hafsteinssonar.