Fara í efni

20. bindi ritraðarinnar Kirkjur Íslands er komið út

KI-20.-bindi
KI-20.-bindi


Í þessu bindi er sagt frá ellefu kirkjum í Austfjarðaprófastsdæmi, sem nú er hluti af nýju Austurlandsprófastsdæmi: Berufjarðarkirkju, Beruneskirkju, Brekkukirkju í Mjóafirði, Djúpavogskirkju, Eskifjarðarkirkju, Fáskrúðsfjarðarkirkju, Hofskirkju í Álftafirði, Kolfreyjustaðarkirkju, Norðfjarðarkirkju, Papeyjarkirkju og Reyðarfjarðarkirkju. Höfundar eru Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrum alþingismaður og ráðherra, Júlíana Gottskálksdóttir listfræðingur, Lilja Árnadóttir, fagstjóri munasafns Þjóðminjasafns, Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir, sérfræðingur í munasafni Þjóðminjasafns, og arkitektarnir Guðmundur Gunnarsson, Hjörleifur Stefánsson, Magnús Skúlason og Páll V. Bjarnason.

Meðal muna Berufjarðarkirkju, sem Haraldur Ó. Briem smíðaði, eru prédikunarstóll og altarisklæði hreinar gersemar. Beruneskirkja, sem Þorgrímur Jónsson smíðaði, á sjaldgæfa söngtöflu úr flögusteini. Kolfreyjustaðarkirkju smíðaði Finnbogi Sigmundsson, þar er klukka frá því um 1300. Auk uppbyggingar á Papeyjarkirkju, sem að stofni er frá 19. öld, smíðaði Lúðvík J. Jónsson Djúpavogskirkju og Hofskirkju, þá síðarnefndu prýðir altaristafla eftir danska listmálarann Carl Rudolf Fiebig. Önnur dönsk altaristafla eftir Hans W. Holm er í Brekkukirkju sem Ólafur Ásgeirsson smíðaði. Sveitungi hans Vigfús Kjartansson reisti Norðfjarðarkirkju sem m.a. á gamlan prédikunarstól úr Skorrastaðarkirkju. Eskifjarðarkirkja er teiknuð af dönskum verkfræðingi og hefur á sér norrænt yfirbragð. Í Fáskrúðsfjarðarkirkju er altaristafla eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal, Reyðarfjarðarkirkja á góða gripi úr Hólmakirkju, m.a. kaleik og patínu frá 1709. Báðar síðasttöldu kirkjurnar eru teiknaðar af Rögnvaldi Ólafssyni húsameistara. 

Bókin er prýdd fjölda ljósmynda, sem Ívar Brynjólfsson ljósmyndari Þjóðminjasafns hefur tekið, og teikningum af kirkjunum ellefu, ýmist frumteikningum eða mælingarteikningum.

Sjá nánar.