Fara í efni

20. desember - Laufás

Laufásbærinn og kirkjan árið 2015. Mynd: Minjasafnið á Akureyri.
Laufásbærinn og kirkjan árið 2015. Mynd: Minjasafnið á Akureyri.

Bærinn í Laufási við Eyjafjörð á sér óslitna byggingarsögu aftur á miðaldir, en húsin hafa verið endurbyggð með reglulegu millibili, og tekið töluverðum breytum í aldanna rás. Síðustu stóru breytingarnar á bænum voru gerðar á tímum séra Björns Halldórssonar sem var prestur og prófastur í Laufási á árunum 1853-1882, en þá voru byggð framhús úr timbri við torfbæinn. Jóhann Bessason var aðalsmiður flestra bæjarhúsa í Laufási, að frátöldu brúðarhúsi og búri, ásamt Tryggva Gunnarsyni, síðar bankastjóra. Hið veglega baðstofuhús var reist árið 1867 en framhúsin og smiðjan árið 1877.

Búrið. Mynd í eigu Minjasafnsins á Akureyri.

Baðstofan. Mynd í eigu Minjasafnsins á Akureyri.

 

Flest húsin í Laufásbæ eru með bindingsverksgrind en í hluta bæjarganga getur að líta stafverk og í brúðarhúsi er blending þessara tveggja smíðaaðferða að finna. Framstafnar Laufásbæjar eru jafnháir og er glugga- og dyraskipan sambærileg frá húsi til húss. Skiptast þar á stafnar með dyrum annars vegar en gluggum hins vegar. Syðsti stafninn er byggður nokkru síðar en hinir og er með öðru lagi. Framþilin voru upphaflega rauðmáluð en hafa verið ljósmáluð frá því á fyrri hluta 20. aldar.

Drengir að leik í snjónum við Laufás. Mynd í eigu Minjasafnsins á Akureyri.

Laufás um 1940 - 1950. Mynd í eigu Minjasafnsins á Akureyri.

Laufásbærinn varð hluti af húsasafni Þjóðminjasafnsins árið 1948 en Minjasafnið á Akureyri rekur safn í bænum sem opið er á sumrin. Safngripirnir koma bæði úr Laufási sem og frá nágrannabæjum.