5.desember - Ráðherrabústaðurinn
Ráðherrabústaðurinn sem stendur við Tjarnargötu 32 í Reykjavík komst í fréttirnar fyrr á árinu þegar höfuðkúpubrot fundust þar við framkvæmdir. Nýlega hófust endurbætur og viðhald á Ráðherrabústaðnum og í því skyni voru m.a. fjarlægðar gólffjalir þar sem áðurnefnd höfuðkúpubrot svo fundust, sjá frétt á mbl.is. Voru beinin afhent Þjóðminjasafni Íslands til rannsókna. Ekki er hægt að segja til um hvenær eigandi höfuðkúpunnar var uppi eða hvort hann hafi komið upphaflega frá Íslandi en líklegt þykir að þau séu af smávaxinni konu.
Mynd af höfuðkúpubrotunum, fengin úr frétt Vísis frá 14. september, 2023.
Húsið við Tjarnargötu 32 var upphaflega reist árið 1892 á Sólbakka í Önundarfirði af Norðmanninum Hans Ellefsen sem þar rak hvalveiðistöð. Húsið hafði Ellefsen látið flytja tilsniðið frá Stokke í Noregi, fæðingarbæ sínum. Í ágúst 1901 varð hvalveiðistöðin eldi að bráð og ákvað Ellefsen þá að flytja starfsemi hennar til Austfjarða. Þegar góðvinur hans, Hannes Hafstein varð ráðherra árið 1904 og var að leita sér að viðeigandi ráðherrabústað bauð Ellefsen honum húsið til kaups fyrir eina krónu og var það þá flutt til Reykjavíkur. Þegar Hannes Hafstein fékk lausn frá embætti árið 1909 keypti landssjóður húsið af honum og það var gert að föstum bústað fyrir ráðherra landsins. Þannig var húsið nýtt til ársins 1943 þegar það varð að móttökuhúsi fyrir ríkisstjórnina.
Ráðherrabústaðurinn reistur kringum 1905. Ljósm: Vigfús Sigurðssson.
Myndina er að finna í gagnasafni Þjóðminjasafns Íslands: Sarpur.is
Árið 1936 eða 1938, líklega opinber heimsókn Kristjáns X Danakonungs eða Friðriks krónprins. Ljósm: Ólafur Magnússon.
Myndina er að finna í Ljósmyndasafni Reykjavíkur: Ljósmyndasafn Reykjavíkur