6.desember - Skrúður
Skrúður á Núpi í Dýrafirði var formlega opnaður þann 7. ágúst 1909 en gerð hans hófst þó fjórum árum fyrr. Það voru bræðurnir Sigtryggur og Kristinn Guðlaugssynir sem byggðu garðinn upp að evrópskri fyrirmynd, samhliða byggingu Ungmennaskólans að Núpi. Hafist var handa við að safna grjóti í grjótgarð þann sem umlykur garðinn og í framhaldi voru fyrstu plönturnar gróðursettar. Garðinum var viðhaldið næstu áratugina en frá 9. áratug síðustu aldar var viðhaldi hætt og féll garðurinn í órækt. Það var svo árið 1992 sem stofnuð voru áhugamannasamtök um varðveislu Skrúðs og hefur garðinum verið vel viðhaldið æ síðan.
Myndir teknar í skoðunarferð Minjastofnunar Íslands, 2018.
Skrúður er skrúðgarður sem ber einkenni klassískra garða í Evrópu frá 16. og 17. öld og telst garðurinn einstakt mannvirki á íslenskan mælikvarða. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undirritaði í byrjun október friðlýsingu Skrúðs á Núpi í Dýrafirði. Friðlýsingin er gerð að tillögu Minjastofnunar Íslands og er fyrsta friðlýsing menningarminja frá því málaflokkurinn færðist til ráðuneytisins. Friðlýsingin tekur til Skrúðs í heild samkvæmt upphaflegu skipulagi garðsins og tegundaflóru, auk steinhlaðinna veggja, garðhliðs úr hvalbeini, gosbrunns, gróðurhúss og annarra sögulegra mannvirkja.