Áform um friðlýsingu búsetulandslags Þjórsárdals
Nú er í undirbúningi friðlýsting búsetulandslags Þjórsárdals á grundvelli laga um menningarminjar nr. 80/2012. Í 18. gr. laganna segir m.a.: „Friðlýsa má samfelld svæði þar sem fleiri en einn minjastaður teljast hafa sérstakt menningarsögulegt gildi“. Aðgerð þessi miðar ekki síst að því að sameina undir eina friðlýsingu allar þær fornleifar í Þjórsárdal sem friðlýstar voru á þriðja áratug 20. aldar með hliðsjón af ákvæðum í 5. gr. laga um verndun fornmenja frá 16. nóvember 1907. Undir friðlýsinguna falla einnig aðrar þær minjar sem nú eru aldursfriðaðar, 100 ára og eldri, samkvæmt menningarminjalögum, bæði þekktar minjar og þær sem kunna að finnast í framtíðinni og umhverfi þeirra.
Tilkynning um áformin hefur verið send öllum helstu hagsmunaaðilum, s.s. sveitarfélagi og landeigendum.
Minjastofnun hefur ákveðið að gefa öllum kost á að koma með athugasemdir við áformin, hvort heldur sem er við friðlýsinguna sjálfa, innihald hennar eða umfang. Athugasemdir sendist á tölvupóstfang Minjastofnunar (postur@minjastofnun.is) í síðasta lagi 10. febrúar.
Áform um friðlýsingu búsetulandslags Þjórsárdals - aðalskjal