Áhrif breytts skipulags á menningarlandslag í Álfsnesvík
Minjastofnun Íslands hefur verulegar áhyggjur af
minjasvæðinu við Álfsnesvík/Þerneyjarsund í Reykjavík en Reykjavíkurborg hefur samþykkt
að heimila flutning athafnasvæðis Björgunar á svæði þar sem merkar menningarminjar
er að finna.
Forsaga málsins er sú að í febrúar 2017 var Minjastofnun upplýst um að áformað væri að flytja athafnasvæði Björgunar úr Elliðaárvogi og að horft væri til svæðis við Þerneyjarsund. Minjastofnun gerði strax athugasemd við þá staðsetningu og benti á að fornleifar væri að finna á svæðinu. Sú afstaða Minjastofnunar hefur verið ítrekuð í minnisblöðum og umsögnum síðan.
Í júlí sama ár, 2017, fór Minjastofnun fram á að fram færi fornleifaskráning við Þerneyjarsund og Álfsnesvík, enda er fornleifaskráning forsenda þess að stofnunin geti tekið upplýsta ákvörðun um möguleg áhrif framkvæmda á fornleifar á viðkomandi svæði.
Fornleifaskráning svæðisins lá fyrir í júní 2018 í skýrslu Borgarsögusafns: Fornleifaskráningá efnisvinnslusvæði við Álfsnesvík, Þerneyjarsundi. Borgarsögusafn 2018,skýrsla 191. Mat Borgarsögusafns er að þarna sé að finna einstakt menningarlandslag með hátt varðveislugildi, eina slíka staðinn í borgarlandslaginu. Svæðið myndar heildstætt menningarlandslag sem er samsett úr þremur samofnum minjaheildum: verslunarstað frá síðmiðöldum, bæjarstæði Sundakots og bæjarstæði Glóru.
Í júlí 2018, þegar Minjastofnun hafði kynnt sér innihald fornleifaskráningarskýrslu Borgarsögusafns, sendi stofnunin bréf til Borgarráðs með eftirfarandi niðurlagi:
Minjastofnun tekur undir það mat Borgarsögusafns að varðveislugildi minjanna er hátt og felst gildi þeirra einkum í því að þar er um að ræða einstaka minjaheild sem varðveist hefur nær ósnortin.
Samkvæmt þeim gögnum sem Minjastofnun hafa verið kynnt og sýna tillögu að afmörkun lóðar fyrir Björgun við Álfsnesvík, bráðabirgðaveg að henni frá athafnasvæði Sorpu og framtíðartengingu við fyrirhugaða Sundabraut, er ljóst að gangi þau áform eftir mun samhengi minjanna rofna og gildi mikilvægs minjasvæðis rýrt til muna. Að auki skal nefnt að í gögnum málsins kemur fram að gera megi ráð fyrir því að í framtíðinni þurfi að stækka athafnasvæði Björgunar og það mun þýða að þá þarf að skerða minjasvæðið enn frekar.
Minjastofnun beinir því til borgaryfirvalda að athafnasvæði Björgunar verði fundinn annar staður. Jafnframt að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir því að minjarnar á Gunnunesi og Álfsnesvík við Þerneyjarsund verði varðveittar til framtíðar í samræmi við 1. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012.
Einnig var Alta sent samhljóðandi bréf með eftirfarandi niðurlagi:
Ljóst er að ef áform um að athafnasvæði Björgunar verði við Álfsnesvík ganga eftir myndi hluti af einstöku minjasvæði verða eyðilagt og gildi svæðisins rýrna verulega.
Svæðið í heild sem nær yfir vestanvert Gunnunes og Álfsnesvík, Þerney og Þerneyjarsund er einstakt og hefur mikla þýðingu fyrir sögu byggðar á Suðvesturlandi sem einn helsti verslunarstaður svæðisins um aldabil.
Með hliðsjón af því sem að ofan er rakið fellst Minjastofnun Íslands ekki á að athafnasvæði Björgunar verði við Álfsnesvík og mun beina þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar að fundinn verði annar staður fyrir starfsemi fyrirtækisins.
Vinna við hönnun lóðar, val á staðsetningu og breytingar á skipulagi hafa verið í höndum Alta fyrir Björgun, en Reykjavíkurborg fer með skipulagsvald á svæðinu og er Borgarráð æðsta ákvörðunarvald borgarinnar í slíkum efnum.
Í október 2018 sendi Minjastofnun umsögn um ýmsa þætti vinnunnar sem þá lágu fyrir. Í umsögn til Reykjavíkurborgar er niðurlagið svohljóðandi:
Það er ljóst að ef að þeim áformum verður, sem kynnt eru í tillögum að breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðis 2040 og aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, verður einstökum minjastað spillt með óafturkræfum hætti, í því skyni að skapa athafnasvæði fyrir tímabundna starfsemi Björgunar.
Með hliðsjón af þessu og þeim verndunarsjónarmiðum sem að ofan eru rakin og byggja á mati á varðveislugildi menningarminja á Álfsnesi og við Þerneyjarsund fellst Minjastofnun Íslands ekki á að athafnasvæði Björgunar verði við Álfsnesvík og beinir þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar að fundinn verði annar staður fyrir starfsemi fyrirtækisins.
Með umsögninni var mat Minjastofnunar á gildi svæðisins, sem einnig var sent Alta. Í því segir m.a.:
Ofan ritaðar þrjár minjaheildir [Kauphöfn við Þerneyjarsund, Sundakot og Glóra], mynda í sameiningu búsetulandslag, sem vitnar um mannvist á svæðinu a.m.k. frá 14. öld fram á miðja 20. öld. Minjagildi hvers svæðis fyrir sig er afar hátt, en gildið felst ekki síður í þeim í sameiningu sem vitnisburði um sögu svæðisins í heild. Því yrði röskun á einu svæði til að rýra gildi hinna. Sem sögustaður vegur síðmiðaldahöfnin þyngst, enda má með nokkrum rökum kalla hana forvera Reykjavíkurhafnar og jafnvel kaupstaðarins í Reykjavík. Minjar smábýlanna tveggja gefa svæðinu svo enn aukið gildi, enda eru þessar þrjár minjaheildir á mjög afmörkuðu svæði og upplagt að nýta í þágu almennings til upplifunar, fróðleiks og útivistar. Mikilvægt er þá að gera svæðið vel aðgengilegt og veita greinargóðar upplýsingar um það menningarlandslag sem fyrir augu ber og sögulegt gildi þess.
Frá árinu 2018 hefur Minjastofnun sent fleiri umsagnir um ýmsa þætti málsins, svo sem til Reykjavíkurborgar, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Skipulagsstofnunar. Hafa þær allar verið samhljóða og ítrekað þá afstöðu stofnunarinnar að um sé að ræða mikilvægt minjasvæði innan borgarmarkanna, minjasvæði sem hefur mest gildi sem heild – eitt menningarlandslag. Ef heildin verði rofin með framkvæmdum inn á milli minjasvæðanna verði um að ræða óafturkræfa eyðileggingu á menningarlandslagi svæðisins.
Í mars 2020 kom út greinargerð dr. Orra Vésteinssonar, prófessors í fornleifafræði, Menningar- og búsetulandslag. Greinargerð unnin fyrir Minjastofnun Íslands. Í greinargerðinni er fjallað um fræðilegar og samfélagslegar forsendur fyrir hugtökunum búsetulandslag og menningarlandslag, rakin þróun verndarhugmynda hérlendis og erlendis og greint frá ríkjandi viðhorfum í alþjóðasamningum, löggjöf og framkvæmd. Lögð er fram tillaga að aðferðafræði til að skilgreina og afmarka þessar tegundir landslags og eru dæmi tekin af höfuðborgarsvæðinu. Eitt þeirra dæma er Þerneyjarsund. Í greinargerðinni segir m.a.
Menningarlandslag kauphafnarinnar skarast við óvenju vel varðveitt búsetulandslag sem mikils er um vert að varðveita. Það nær yfir sama svæði en auk þess vesturhluta Þerneyjar (þ.e. öll eyjan), austurhluta Gunnuness og bæjarstæði Glóru. Sjónrænt helgunarsvæði kauphafnarinnar fellur nokkurn veginn saman við mörk þessa búsetulandslags. (bls. 44).
Í apríl 2020 samþykkti Borgarráð breytingar á skipulagi í Álfsnesi sem felur í sér að heimila að athafnasvæði Björgunar verði við Álfsnesvík þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir Minjastofnunar. Minjastofnun hefur, eins og lýst var hér í upphafi, verulegar áhyggjur af minjasvæðinu við Þerneyjarsund og furðar sig á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið í málinu, en aðilar virðast hafa skellt skollaeyrum við ítrekuðum athugasemdum stofnunarinnar og beiðnum um að athafnasvæði Björgunar yrði fundinn annar staður en við Álfsnesvík.
Samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012 má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar spilla, granda eða breyta, hylja, laga, aflaga eða flytja úr stað fornleifar, sbr. 3.mgr. 3. gr., jafnt þeim sem eru friðlýstar sem þjóðminjar og þeim sem njóta friðunar í krafti aldurs, nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Fornleifar skv. 3. mgr. 3. gr. teljast hvers kyns mannvistarleifar, á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni, sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru 100 ára og eldri. Undir þetta falla m.a. búsetulandslag, byggðaleifar, leifar verslunarstaða og mógrafa. Upptalninguna íheild sinni má finna í lögunum, hér .
Hér má sjá umfjöllun um minjasvæðið við Þerneyjarsund þegar það var til umfjöllunar á heimasíðu Minjastofnunar undir liðnum Minjar mánaðarins í febrúar á þessu ári.