Alþingisgarðurinn friðlýstur
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, undirritaði friðlýsingu Alþingisgarðsins þann 18. nóvember síðastliðinn.
Alþingisgarðurinn við Kirkjustræti 14 í Reykjavík er elsti og best varðveitti almenningsgarður við opinbera byggingu á Íslandi. Hann markar tímamót í íslenskri garðsögu þar sem hann er fyrsti garðurinn sem var hannaður áður en framkvæmdir við hann hófust. Varðveitt er teikning eftir Tryggva Gunnarsson alþingismann þar sem hann sýnir hvar hinar ýmsu plöntutegundir eru staðsettar. Alþingi samþykkti byggingu garðsins árið 1893 og hófust framkvæmdir þá um haustið. Var þeim að mestu lokið ári síðar. Tryggvi stóð fyrir verkinu en hann hafði áður haft umsjón með byggingu Ölfusárbrúar og komið að byggingu Alþingishússins.
Eftir að stjórnmálastörfum lauk sá Tryggvi um hirðingu garðsins allt til dauðadags 1917. Tryggvi var jarðsettur í garðinum að hans ósk og á leiðinu er minnisvarði eftir Ríkarð Jónsson myndhöggvara. Alþingisgarðurinn hefur haldið upprunalegu formi sínu svo til óbreyttu allt til dagsins í dag og hefur alltaf verið í góðri umhirðu. Minni háttar breytingar og endurbætur sem gerðar hafa verið í gegnum tíðina hafa ekki snert grundvallarform garðsins. Friðlýsingin tekur til Alþingisgarðsins í þeirri mynd sem hann hefur varðveist, skipan stíga, beða, trjágróðurs og tegundaflóru innan hvers reits, minnisvarða, hleðslna og yfirborðsefna ásamt veggjahleðslunni umhverfis garðinn.
Friðlýsingin er gerð að tillögu Minjastofnunar Íslands og er í samræmi við ákvæði laga um menningarminjar (18.gr.) sem fjallar um friðlýsingu húsa og mannvirkja eða hluta þeirra sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi. Friðlýsingin byggir á greinargerð Félags íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) þar sem gerð er tillaga að friðlýsingu nokkurra garða á Íslandi (Garðar – lifandi minjar - Aðferðir við verndarmat og skráningu gamalla garða).
Sjá einnig frétt á heimasíðu Stjórnarráðsins: