Fara í efni

Ársfundur forstöðumanna minjastofnana í Evrópu haldinn á Íslandi

European_Heritage_Heads_Forum_web_282
European_Heritage_Heads_Forum_web_282

Dagana 7.-9. júní var árlegur fundur nets forstöðumanna minjastofnana í Evrópu, European Heritage Heads Forum (EHHF), haldinn á Íslandi. Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, hefur gegnt formennsku í EHHF síðastliðið ár í tengslum við fundinn. Minjastofnun sá um skipulagningu fundarins með aðstoð Helgu Gunnar Þorvaldsdóttur hjá CP Reykjavík og Cyril Meniolle de Cizancourt, starfsmanns EHHF í Brussel. 

Í neti forstöðumannanna eru fulltrúar 29 landa. Fundurinn á Íslandi var 12. ársfundur EHHF, en forstöðumennirnir skiptast á að veita netinu formennsku og halda ársfundina. Hugmyndin með fundum forstöðumannanna er að ræða það sem er efst á baugi í minjavernd í Evrópu hverju sinni og læra hvert af öðru. Auk fundar þar sem fjallað er um ákveðið fyrirframgefið efni bjóða löndin upp á kynnisferð um minjastaði. Síðustu ár hafa fundirnir verið haldnir m.a. í Sviss, í Belgíu og á Írlandi.

Mennta- og menningarmálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson setti fundinn, sem bar yfirskriftina: Our common Heritage – Sharing the responsibility . Við val á efni fundarins var bæði horft til íslensks og evrópsks raunveruleika og þeirra áhersluþátta sem valdir hafa verið vegna Evrópska menningarminjaársins 2018. Bæði voru fluttir fyrirlestrar og unnið í umræðuhópum á fundinum og fóru fundarhöld fram í Norðurljósasal Hörpu. Auk fundarhalda á fimmtudeginum var  farið á Bessastaði þar sem forsetinn tók á móti hópnum.

Síðasta dag fundarins var farið í skoðunarferð um Þjórsárdal, þar sem gestirnir skoðuðu m.a. Stöng og Þjóðveldisbæinn. Einnig var farið að Keldum á Rangárvöllum og kvöldmatur að lokum snæddur í Ingólfsskála.

Fundurinn tókst með eindæmum vel og létu gestirnir ánægju sína óspart í ljós. Við lok fundarins vék Kristín Huld úr sæti formanns og við tók Patrick Sanavia, en fundurinn 2018 verður haldinn í heimalandi hans, Lúxemborg.


Frekari upplýsingar um EHHF má finna hér á heimasíðu þess