17. desember - Ólafsdalur í Gilsfirði
Menningarlandslag í Ólafsdal er einstakt á landsvísu. Þar var rekinn búnaðarskóli á árunum 1880-1907 og minjar frá tímum hans eru í öndvegi. Þar má t.d. nefna beðasléttur, nátthaga og vatnsveituminjar – allt fyrirbæri sem síðar breiddust út um landið.
Víkingaaldarrústir sem þar er að finna gefa dalnum einnig tvímælalaust mikið gildi. Rannsóknum á staðnum er ætlað að varpa ljósi á upphaf byggðar í Ólafsdal, hvers eðlis hún var, hvernig hún þróaðist og reyna að finna vísbendingar um það hvers vegna skáli var reistur á þessum sérstaka stað innst í dalnum. Rannsóknin á skálanum á árunum 2018-2021 hefur leitt í ljós að hann hefur einungis verið íveruhús á elsta notkunarskeiðinu, en eftir það virðist hann hafa verið nýttur sem geymsla eða vinnuaðstaða. Gripir sem hafa fundist tengjast persónulegri skreytingu en einnig vinnu sem fór fram innan skálans, s.s. viðgerðum og smíðavinnu. Einnig sjást möguleg merki um tilraunir til nýtingar á innlendu efni en gripir úr rauðabergi hafa fundist við uppgröftinn.
Stjórnendur: Birna Lárusdóttir, Hildur Gestsdóttir og Howell M. Roberts, Fornleifastofnun Íslands ses.
Fornleifarannsóknin á Facebook
Skýrslur rannsóknarinnar
Þessi færsla er unninn upp úr gögnum sem skilað er inn til Minjastofnunar við lok hvers rannsóknarárs.