21. desember - Hofstaðir í Mývatnssveit
Fornleifarannsóknir á Hofstöðum í Mývatnssveit má rekja allt aftur til ársins 1901. Tæpum 100 árum síðar eða árið 1991 hóf Fornleifastofnun Íslands ses. rannsóknir á staðnum sem stóðu yfir með hléum allt til ársins 2018. Á Hofstöðum hafa m.a. fundist tveir skálar, bæjarhóll, kirkja og kirkjugarður. Rannsóknin hefur leitt í ljós að sögu Hofstaða megi rekja aftur til ársins 940 þegar veisluskáli, jarðhýsi og smiðja voru reist. Síðar meir er veisluskálinn stækkaður, m.a. með viðbyggingum til norðurs og annarri á suðausturhlið. Árin 1030-1070 marka lok búsetu í skálanum og sést það t.a.m. af fundi á höfuðkúpum tveggja nautgripa og breytingu á notkun bygginga. Rústir hans standa þá ósnertar í túni bæjarins en síðar voru reistar í þeim aðrar byggingar, svo sem útihús og heygryfja. Gripir sem fundust í skálanum og vitna til um ríkidæmi íbúa eru m.a. gull- og silfurnisti og prjónn úr bronsi. Árið 2016 fannst áður óþekktur skáli í horni túngarðs Hofstaða og hefur aldursgreining á honum leitt í ljós að hann er eldri en skálinn sem nefndur er hér að ofan.
Helstu markmið rannsóknarinnar á kirkjunni og kirkjugarðinum var að auka við þekkingu á notkun miðaldakirkju og greftrunarsiða sama tíma. Þetta fól í sér að grafa upp allan kirkjugarðinn og grafir innan hans en einnig að kanna hvort mannvirki tengd notkun kirkjugarðsins og fleiri grafir væri að finna utan garðsins. Auk þess fór fram beinafræðileg rannsókn á beinunum sem sýndi m.a. fram á mörg tilfelli arfgengrar slitgigtar. Kirkjugarðurinn var í notkun á árunum 940 til 1300 en kirkjan sjálf gæti hafa verið í notkun eitthvað lengur.
Stjórnendur: Gavin Lucas, Hildur Gestsdóttir og Orri Vésteinsson, Fornleifastofnun Íslands ses. og Háskóli Íslands.
Facebook síða rannsóknarinnar
Heimasíða Fornleifastofnunar Íslands ses.
Fornleifastofnun Íslands – The Institute of Archaeology, Iceland
Skýrslur rannsókna 1995 - 2004 á Hofstöðum
Skýrslur rannsókna 2010 - 2015 á kirkjugarðinum á Hofstöðum
Skýrslur rannsókna 2016 - 2018 á Hofstöðum
Þessi færsla er unninn upp úr gögnum sem skilað er inn til Minjastofnunar við lok hvers rannsóknarárs.