Friðun Ásvallagötu 67 í Reykjavík

Ásvallagata 67
Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, húsið að Ásvallagötu 67 í Reykjavík, 18. maí 2011, að tillögu Húsafriðunarnefndar.
Friðunin nær til ytra byrðis hússins.
Húsið að Ásvallagötu 67 teiknaði Þórir Baldvinsson arkitekt árið 1934. Húsareitur Byggingarsamvinnufélags Reykjavíkur við Ásvallagötu er elsta dæmi um heilsteypta byggð í anda fúnksjónalisma. Þórir Baldvinsson teiknaði aðra húsgerðina, tvílyft einbýlishús úr timbri með forskalningu. Ásvallagata 67 er eina húsið þeirrar gerðar sem ekki hefur verið breytt.